Endurskoða hælisumsóknarferlið

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Eftirmálin verða öll á jákvæðum nótum, að reyna að finna leiðir til úrbóta,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem átti í dag fund með Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingamálastofnunar, vegna ummæla sem höfð voru eftir henni í liðinni viku og hún sagði tekin úr samhengi.

Snýst ekki bara um fjármagn og mannafla

„Þetta var ágætur fundur þar sem við ræddum meðal annars umræðu liðinnar viku og orð sem þar voru látin falla af hennar hendi. Ég lýsti mínum sjónarmiðum og hún gaf sínar skýringar,“ segir Ögmundur. Hann kallaði forstjóra Útlendingastofnunar á teppið í kjölfar fréttar Rúv fyrir helgi þar sem haft er eftir henni að fyrir fólk, sem sé ekki beinlínis hælisleitendur, geti verið fýsilegur kostur að koma hingað til lands þar sem það fái frítt fæði og húsnæði vegna þess hve málsmeðferð hælisleitenda sé löng.

„Ég var ósáttur við ummæli hennar og það hefur ekkert breyst en það var gagnlegt að heyra hennar skýringar og síðan er að horfa til framtíðar og hvernig við getum lagað þær brotalamir sem eru í þessu kerfi öllu,“ segir Ögmundur.

Hann vill nú yfirfara alla málsmeðferð við hælisumsóknir, kanna málshraða og meðferð hjá stofnunum og segist hafa greint Kristínu frá þeirri ákvörðun sinni í dag. Þar eigi ekkert að vera undanskilið skoðun, hvorki Útlendingastofnun né innanríkisráðuneytið. „Allt er þetta gert til að kanna hvort það séu brotalamir sem við getum lagað og eru ekki endilega háðar fjármagni eða mannafla heldur hugsanlega vinnubrögðum.“ 

Staðreynd að hælisumsóknum fjölgar

Kristín Völundardóttir sendi frá sér yfirlýsingu um helgina eftir að ummæli hennar komust í hámæli og segir þar m.a. að undanfarnar vikur hafi sótt hér um hæli nokkur hópur einstaklinga sem fallið gæti undir skilgreiningu þess sem kallað er „asylum tourism“. Slíkir einstaklingar teljist ekki flóttamenn samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna en eigi þrátt fyrir það rétt á vandaðri málsmeðferð, með tilheyrandi álagi á kerfið sem geti svo aftur tafið biðtíma þeirra sem sárlega þurfi á vernd að halda.

Aðspurður um afstöðu sína til svo kallaðra „hælistúrista“ segir Ögmundur það staðreynd að hælisumsóknum sé að fjölga. „Og þá skiptir miklu máli að við höfum allt umsóknarferlið sem vandaðast. Það þjónar hagsmunum allra að hafa það sem hraðvirkast og það verður allt kapp lagt á að það megi takast.“

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert