Vantraust snýst um pólitískt stöðumat

Sjálfstæðismenn eru m.a. að skoða að leggja fram tillögu um …
Sjálfstæðismenn eru m.a. að skoða að leggja fram tillögu um vantraust á Steingrím J. Sigfússon. mbl.is/Golli

Sjálfstæðismenn eru að skoða þann möguleika að leggja fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra hennar. Framsóknarmenn útiloka ekki að standa að slíkri tillögu en efast um að meirihluti sé fyrir henni á Alþingi.

Eftir að Jón Bjarnason sagði sig úr þingflokki VG hafa stjórnarflokkarnir á bak við sig 30 þingmenn en 63 þingmenn sitja á Alþingi. Til að verjast tillögu um vantraust þurfa því einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar að ganga til liðs við ríkisstjórnina.

Síðast voru greidd atkvæði um vantraust í apríl 2011, en þá var tillagan felld með 30 atkvæðum gegn 32, einn þingmaður sat hjá. Á þeim tíma sem liðinn er hafa tveir þingmenn yfirgefið stjórnarflokkana, þ.e. Jón Bjarnason og Róbert Marshall. Þingmenn Hreyfingarinnar studdu vantrauststillöguna árið 2011, en Guðmundur Steingrímsson sat hjá.

Hvað gera Hreyfingin og Björt framtíð?

Ekki liggur fyrir hvernig þingmenn Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar myndu greiða atkvæði nú ef tillaga um vantraust kemur fram, en þingmenn flokkanna hafa stundum stutt frumvörp ríkisstjórnarinnar. Þingmenn Hreyfingarinnar leggja mikla áherslu á að ljúka á þessu þingi afgreiðslu stjórnarskrármálsins, en ef samþykkt yrði tillaga um vantraust er alveg ljóst að það mál mun ekki klárast. Hafa þarf í huga að það er alls ekki víst að stjórnarskrármálið klárist þó að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið.

Eindreginn stuðningur Hreyfingarinnar við stjórnarskrármálið kann hins vegar að stuðla að því að stjórnarflokkarnir veigri sér við því að ganga til samninga við stjórnarandstöðuna um að ljúka endurskoðun á afmörkuðum köflum stjórnarskrárinnar og láta annað bíða næsta þings, því það gæti leitt til þess að þingmenn Hreyfingarinnar ákveði að standa að tillögu um vantraust á ríkisstjórnina.

Framsóknarmenn hafa farið fram á að ríkisstjórnin biðjist afsökunar á framgangi sínum í Icesave-málinu og Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segist vera að bíða eftir svörum við þeirri beiðni. Hann telur ótímabært að svara því hvort líklegt sé að vantrauststillaga komi fram.

Eitt af því sem þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa rætt er að leggja fram tillögu um vantraust á einstaka ráðherra og einkum hefur verið rætt um Steingrím J. Sigfússon í því sambandi, en hann bar lengst af ábyrgð á samningum um Icesave-málið. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa oftar en einu sinni gagnrýnt framgöngu Steingríms í Icesave-málinu og því vaknar sú spurning hvort þeir komi honum til varnar ef borið verði fram vantraust á hann. Tillaga um vantraust á Steingrím myndi hins vegar falla ef þingmenn Bjartrar framtíðar leggjast gegn henni.

Vandséð er að sjá hvernig ríkisstjórnin getur haldið áfram að starfa ef formaður annars stjórnarflokksins verður felldur úr ráðherrastóli.

Vantraust á ríkisstjórn þýðir ekki sjálfkrafa að efnt sé til kosninga í kjölfarið því hugsanlegt er að nýr meirihluti myndist án kosninga. Alþingi getur hins vegar samþykkt ályktun um að boðað verði til kosninga og forsætisráðherra getur einnig rofið þing án þess að slík tillaga komi fram. Þegar Steingrímur J. Sigfússon lagði fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn Geirs H. Haarde haustið 2008 var í tillögunni tekið fram að boða ætti til kosninga fyrir áramót. Í tillögu sem Bjarni Benediktsson lagði fram í apríl 2011 var eingöngu talað um vantraust á ríkisstjórnina en ekkert minnst á kosningar.

Þingkosningar eiga að fara fram eftir þrjá mánuði. Ef tillaga um vantraust yrði samþykkt á næstu dögum yrði kosningum væntanlega flýtt. Það hefði þær afleiðingar að öll umdeild mál, sem ríkisstjórnin hefur vonast til að ná fram í vetur, verða lögð til hliðar. Það fer síðan eftir pólitísku mati stjórnarandstöðuflokkanna hvort þeir hagnist á því að flýta kosningum. Það kann að hafa áhrif á afstöðu flokkanna hvort þeir telja að þeir hagnist á því að kjósa sem fyrst eða hvort pólitísk staða þeirra batni við að bíða og gefa sér meiri tíma til að undirbúa kosningar.

Vantraust var samþykkt 1909, 1911 og 1950

Tillaga um vantraust á ráðherra hefur tvisvar verið samþykkt á Alþingi, en fara þarf meira en 100 ár aftur í tímann, þegar þingræði var að taka á sig mynd á Alþingi. Þegar Hannes Hafstein missti þingmeirihluta árið 1908 sat hann áfram sem ráðherra þar til Alþingi samþykkti vantraust á hann 1909. Sagan endurtók sig árið 1911 þegar flokkur Björns Jónssonar klofnaði og tillaga um vantraust á hann var lögð fram og samþykkt.

Sjaldgæft er að tillaga um vantraust sé lögð fram á einstaka ráðherra. Árið 1953 var lögð fram tillaga um vantraust á Bjarna Benediktsson menntamálaráðherra. Hún var felld.

Það hefur aðeins einu sinni gerst að ríkisstjórn hafi farið frá völdum eftir að þingið hefur samþykkt tillögu um vantraust. Það gerðist árið 1950 þegar minnihlutastjórn Ólafs Thors var felld í vantraustsatkvæðagreiðslu.

Það hefur margoft komið fyrir að tillögur um vantraust á ríkisstjórn hafi verið lagðar fram á Alþingi. Ef litið er til síðustu 50 ára þá komu fram tillögur um vantraust árið 1961, 1963, 1966, 1967, 1968, 1973, 1974, 1976, 1983, 1984, 1988, 1990, 1994, 2008 og 2011. Þessar tillögur eiga það sammerkt að hafa allar verið felldar. Vantrauststillagan frá árinu 1974 kom þó aldrei til atkvæða því forsætisráðherra rauf þing stuttu eftir að hún kom fram, enda lá þá nokkuð ljóst fyrir að hún yrði samþykkt.

Tillagan um vantraust sem stjórnarandstaðan lagði fram árið 1994 hefur líka vissa sérstöðu því að í henni var lagt fram vantraust á alla ráðherra í ríkisstjórninni, en ekki bara ríkisstjórnina í heild sinni. Einn flutningsmanna tillögunnar var Ólafur Ragnar Grímsson. Davíð Oddsson forsætisráðherra lagði fram dagskrártillögu um að tillögunni yrði vísað frá þar sem hún bryti í bága við starfshætti Alþingis og rótgróna þingvenju. Dagskrártillagan var samþykkt.

Vantraust þýðir að ríkisstjórn þarf að fara frá völdum

Samkvæmt lögum um stjórnarráð Íslands er forsætisráðherra skylt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt ef tillaga um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt á Alþingi. Samþykki Alþingi tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn er forsætisráðherra skylt að gera tillögu til forseta um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti.

Þess má geta að í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að leggja megi fram tillögu um vantraust á ráðherra. Tekið er fram að í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skuli felast tillaga um eftirmann hans.

Guðmundur Steingrímsson, sat hjá þegar greidd voru atkvæði um vantraust …
Guðmundur Steingrímsson, sat hjá þegar greidd voru atkvæði um vantraust vorið 2011. mbl.is/Ómar
Jón Bjarnason hefur gengið úr þingflokki VG. Steingrímur J. Sigfússon …
Jón Bjarnason hefur gengið úr þingflokki VG. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson geta því tæplega vænst þess að hann styðji þá ef greidd verða atkvæði um tillögu um vantraust. mbl.is/Ómar Óskarsson
Þingmenn Hreyfingarinnar leggja höfuðáherslu á stjórnarskrármálið.
Þingmenn Hreyfingarinnar leggja höfuðáherslu á stjórnarskrármálið. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert