Erlendir miðlar fjalla um Blævi

Blær fagnar niðurstöðunni í dag.
Blær fagnar niðurstöðunni í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Erlendir fjölmiðlar hafa veitt baráttu Blævar Bjarkardóttur Rúnardóttur mikinn áhuga undanfarið og ekki síður nú þegar Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún megi heita Blær í stað Stúlka eins og hún hefur heitið í Þjóðskrá allt frá árinu 1997 þegar hún fæddist.

Meðal annars er fjallað um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í dag og á fréttavef Yahoo! News. Báðir miðlarnir gera einkum ströng nafnalög á Íslandi að umfjöllunarefni sínu og lætur sá síðarnefndi þess meðal annars getið að þrátt fyrir að Blær hafi ekki talist geta gengið sem kvenmannsnafn sé karlmannsnafnið Elvis að finna á listanum yfir leyfileg karlmannsnöfn.

Rifjað er upp að ríki eins og Þýskaland og Danmörk hafi einnig lista yfir nöfn sem gefa megi börnum. Viðleitni sé hins vegar vaxandi til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem slíkir listar séu ekki til staðar til þess að gefa börnum óvenjuleg nöfn en þau áhrif megi að hluta til rekja til þess að ýmsir frægir einstaklingar hafi gefið börnum sínum slík nöfn.

Fleiri erlendir miðlar hafa einnig fjallað um málið í dag eins og fréttavefirnir Philippine Times og The Inquisitr sem og Fox News svo dæmi séu tekin.

„Ég er afar glöð,“ er haft eftir Blævi í frétt BBC í dag en fréttin var um tíma sú mest lesna vef þeirra. „Ég er glöð með að þetta er búið. Nú reikna ég með að fá ný skilríki. Loksins verður nafnið Blær að finna í vegabréfi mínu.“

Fram kemur í fréttinni að á Íslandi, Þýskalandi og Danmörku séu lög sem setji skorður við því hvaða nafn sé heimilt að gefa barni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert