Þrýstingur réð för - ekki tilviljun

Ögmundur Jónasson innaríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innaríkisráðherra. mbl.is/Frikki

„Svarið er játandi. Sú krafa var reist að allir ráðherrar í ríkisstjórninni yrðu að vera samstiga í þessu máli [að samþykkja Icesave] ella myndi ríkisstjórnin fara frá. Ég vildi hvorugt beygja mig undir, þetta né sprengja ríkisstjórnina,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Ásmundur ræddi niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu og spurði Ögmund hvort það hefði verið tilviljun að hann sagði af sér sem heilbrigðisráðherra árið 2009, eða var það vegna þrýstings frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar.

„Ég vildi halda stjórnarsamstarfinu áfram en ég vildi ekki samþykkja Icesave-samninginn. Og af þeim ástæðum varð niðurstaðan sú að ég sagði af mér ráðherraembætti,“ sagði Ögmundur.

Ásmundur Einar vísaði til þess að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, hefði látið þau ummæli falla í gær að „gæfa þjóðarinnar er hins vegar að atburðarásin [í Icesave-deilunni] varð fyrir tilviljun í fulkominni óvissu, hvernig við sýndum í verki vilja til lausna,“ sagði Ásmundur og vísaði orðrétt í ummæli Árna Þórs.

„Það réð því engin tilviljun að ég sagði af mér embætti heilbrigðisráðherra haustið 2009. Því síður er ég sammála því að tilviljun hafi ráðið þessu ferli. Því fer fjarri,“ sagði Ögmundur og bætti við að niðurstaðan í úrskurði EFTA-dómstólsins ætti ekki að koma á óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert