Litlir hvatar til að hefja nýjan rekstur

Stofnun nýrra fyrirtækja og tilraunir einstaklinga til að hasla sér völl með sjálfstæðum atvinnurekstri eru enn í mikilli lægð í mörgum atvinnugreinum.

Í fyrra voru nýskráningar hlutafélaga og einkahlutafélaga alls 1.765 talsins, litlu fleiri en á árinu á undan en þeim hefur fækkað mikið frá árunum 2008 og 2009. Á hrunárinu var fjöldi nýrra fyrirtækja sem skráð voru 2.571 talsins og ári síðar enn fleiri eða 2.642 samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Á sama fimm ára tímabili voru 5.329 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta. Þau voru 1.109 í fyrra, sem er töluverð fækkun frá árinu á undan en engu að síður áttu sér stað mun fleiri gjaldþrot á árunum 2011 og 2012 en á árunum á undan.

Fyrirtækjum fer fækkandi í mörgum atvinnugreinum og þegar betur er að gáð kemur ljós að stóran hluta nýskráninga hlutafélaga og einkahlutafélaga er að finna í einstökum greinum og mikill munur er á milli atvinnugreina hvað þetta varðar.

Háir skattar hindra og letja

„Í grundvallaratriðum tel ég að á þessu séu tvær skýringar,“ segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins. „Aðstæður í efnahagslífinu eru ekki mjög hagfelldar og við sjáum að allar fjárfestingar í atvinnulífinu hafa verið mjög litlar. Hvatarnir til þess að fara af stað virðast ekki vera nægilega sterkir,“ segir hann.

„Önnur skýring er sú að skattalega hagræðið af því að vera með einkahlutafélög og sjálfstæðan rekstur hafa minnkað. Það eru engin ný sannindi að háir skattar hindra og letja menn bæði til vinnu og framtaksemi í atvinnulífinu, þegar menn hafa ekki hagræna hvata til að reyna að afla aukins hagnaðar og aukinna tekna. Þetta hefur verið að gerast hægt og bítandi frá hruninu,“ segir Bjarni Már.

Yfir þúsund fyrirtæki á skrá um útgerð smábáta

Nokkrar greinar standa undir stærstum hluta þeirra nýskráninga félaga sem áttu sér stað í fyrra. Þannig voru t.d. nýskráningar félaga um útgerð smábáta 179 á þriggja ára tímabili, þ.e. 2010 til 2012, og 71 félag var skráð á árinu 2009. Gefur augaleið að hér eiga strandveiðarnar stærstan hlut að máli. Fyrirtækjum og einkahlutafélögum sem stofnuð eru um útgerð smábáta hefur fjölgað mikið. Alls voru slík félög 838 talsins á árinu 2008 en í fyrra var fjöldi þeirra kominn yfir eitt þúsund (1.012). Félögum sem stofnuð eru um leigu atvinnuhúsnæðis hefur líka fjölgað ört skv. skrá Hagstofunnar. Á fimm ára tímabili var alls skráð 951 félag um slíka starfsemi, þar af voru þau 514 á seinustu þremur árum. Veitingastöðum hefur einnig fjölgað umtalsvert ef marka má tölur um nýskráningar félaga en alls voru skráðir 375 veitingastaðir á sl. fimm árum

Til samanburðar voru t.d. aðeins tvö ný fyrirtæki skráð um viðgerðir og viðhald á skipum og bátum á sl. þremur árum. Ekkert nýtt félag var skráð um framleiðslu á íþróttavörum en 31 félag um raflagnir á þessu árabili, svo dæmi séu tekin. Töluverður fjöldi nýrra fataverslana var skráður, eða 58 á árunum 2010-2012, en aðeins þrjú félög um framleiðslu á húsgögnum og innréttingum, svo frekari dæmi séu tekin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert