Leit á börnum er lögbrot

Lögreglumenn með fíkniefnaleitarhunda leituðu í Iðnskólanum fyrir nokkrum árum.
Lögreglumenn með fíkniefnaleitarhunda leituðu í Iðnskólanum fyrir nokkrum árum. mbl.is/Billi

Foreldrar geta ekki ákveðið upp á sitt eindæmi að skoða eigur barna sinna eða opna tölvuskilaboð þeirra eða Facebook-síður. Gefa ætti börnum kost á því að vera viðstödd þegar slíkt er gert. Almennt þarf lagaheimild til að heimilt sé að leita á börnum og í framhaldsskólalögum er ekkert sem kveður á um að leit á nemendum sé heimil.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Margrétar Maríu Sigurðardóttur, umboðsmanns barna, á fundi samtakanna Náum áttum í morgun. Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni „Hundur eða blaðra“ og umfjöllunarefni hans var vímuefnaleit í framhaldsskólum og á skólaskemmtunum.

Réttur barna til að njóta einkalífs og réttur þeirra til að vera vernduð gegn ólöglegri notkun vímuefna getur skarast, að sögn Margrétar. „Ef grunur er um lögbrot þarf að hafa samband við lögreglu, en það geta þó komið upp neyðaratvik þegar t.d. barn stofnar sjálfu sér eða öðrum í hættu,“ sagði Margrét.

„Börn njóta sömu mannréttinda og fullorðið fólk og það felur meðal annars í sér rétt einstaklinga til að ráða yfir líkama sínum. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna má ekki láta barn sæta ólögmætum afskiptum af einkalífi þess. Þessi réttur er þó ekki ótakmarkaður og takmarkast að nokkru leyti af ábyrgð og skyldum foreldra.“

Tvö sjónarmið vegast á

Margrét sagði tvö sjónarmið vegast á í þessu sambandi; annars vegar væri friðhelgi nemenda og hins vegar sú skylda framhaldsskólanna að sporna við áfengis- og vímuefnaneyslu.

Hún segir ekki réttlætanlegt að fara með fíkniefnahunda inn í skóla nema til staðar sé rökstuddur grunur og dómsúrskurður. „Við myndum ekki sætta okkur við að fíkniefnahundur kæmi inn á okkar vinnustað,“ sagði hún og nefndi dæmi um slíkt tilvik fyrir nokkrum árum, þegar farið var með fíkniefnahunda inn í framhaldsskóla í Reykjavík. „Tilgangurinn getur ekki réttlætt brot á grundvallar mannréttindum.“

Óheimilt að hamla inngöngu ef neitað er að blása í mæli

Algeng leið til að sporna við áfengisneyslu framhaldsskólanemenda er að þau þurfi að blása í áfengismæla til að fá inngöngu á skólaböll. Margrét María sagði að álit mennta- og menningarmálaráðuneytisins á þessu væri að óheimilt sé að meina nemendum inngöngu á skólaball ef þeir neiti að blása í áfengismæli. Hún benti ennfremur á að sum ungmenni neyttu annarra vímugjafa en áfengis. „Leitin þjónar ekki tilgangi sínum ef hún nær eingöngu til áfengis.“

Náum áttum er samstarfshópur fjölmargra aðila, þeirra á meðal eru embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Reykjavíkurborg, Heimili  og skóli, Þjóðkirkjan og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert