Margir milljarðar í ný útgjöld

Ríkisstjórnin kynnti á síðasta ári fjárfestingaáætlun til þriggja ára sem …
Ríkisstjórnin kynnti á síðasta ári fjárfestingaáætlun til þriggja ára sem felur í sér útgjöld samtals upp á 15,6 milljarða. Þar af nema útgjöld á þessu ári rúmlega 6 milljörðum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þó að fjármálaráðherra segi að ekki sé hægt að setja meira en 370 milljónir í að hækka laun hjúkrunarfræðinga hafa stjórnvöld á síðustu mánuðum tekið ákvörðun um ný milljarðaútgjöld og skrifað undir skuldbindingar til næstu ára upp á marga milljarða.

„Við getum ekki hækkað meira en boðið hefur verið í þessu fyrsta skrefi öðru vísi en að fara í miklar lántökur. Það er ekki fleiri peninga að sækja, því miður,“ sagði Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra í viðtali á Rás tvö í morgun um þær 370 milljónir króna sem ríkisstjórnin ætlar að veita til endurskoðunar stofnanasamnings hjúkrunarfræðinga við Landspítala.

Hallarekstur og miklar skuldir

Það er án efa rétt hjá Katrínu að staða ríkissjóðs er mjög þröng og að öll ný útgjöld kalla á lántökur. Áætlaðar skuldir ríkissjóðs á þessu ári nema 1.507 milljörðum sem er yfir 80% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt tölum um greiðsluafkomu ríkissjóðs á síðasta ári er hallinn á ríkissjóði yfir 48 milljarðar (miðað við tölur fyrir fyrstu 11 mánuði síðasta árs). Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir að hallinn verði rúmlega 3,6 milljarðar. Einn stærsti útgjaldaliðurinn er vaxtagreiðslur, en reiknað er með að ríkissjóður greiði á þessu ári 88 milljarða í vexti.

Staða ríkissjóðs til að auka útgjöld er því augljóslega mjög þröng. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar lagt áherslu á að stjórnin hafi náð miklum árangri í ríkisfjármálum og þegar fjárlagafrumvarp ársins 2013 var kynnt sagði í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að „bætt rekstrarstaða ríkissjóðs [gerði] mögulegt að auka framlög til stuðnings við barnafjölskyldur og til atvinnusköpunar.“

9,5 milljarðar í ný útgjöld

Í tilkynningunni kom fram að útgjöld á þessu sviði yrðu aukin um 9,5 milljarða. Þetta skiptist þannig að til hækkunar barnabóta fara 2,5 milljarðar, samgönguframkvæmdir 2,5 milljarðar, vaxtabætur/húsnæðisbætur 1 milljarður, þróunaraðstoð 1 milljarður, Fæðingarorlofssjóður 800 milljónir, rannsóknar- og tækniþróunarsjóður 1,3 milljarðar, sóknaráætlanir landshluta 400 milljónir.

Í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér í nóvember var skipting fjármagns í svokallaða fjárfestingaleið kynnt, en á þessu ári verður yfir sex milljörðum króna varið í aukna fjárfestingu og vaxtargreinar. Um er að ræða 1 milljarð í byggingu nýs fangelsis, 800 milljónir í Hús íslenskra fræða, 640 milljónir í Herjólf og Landeyjahöfn, 500 milljónir til Náttúruminjasafns, 290 milljónir í Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri og 200 milljónir í friðuð og friðlýst hús og mannvirki.

Einn milljarður í Græna hagkerfið

Þá á samkvæmt áætluninni að verja 1.030 milljónum í Græna hagkerfið, 920 milljónir eiga að fara í skapandi greinar (þar af 470 milljónir í Kvikmyndasjóð), 200 milljónir fara til fjárfestinga í Netríkinu Íslandi og 750 milljónir fara til fjárfestinga í ferðaþjónustu.

Þeir sem stýra ríkissjóði hafa verið að skrifa undir fleiri skuldbindingar í vetur. Þar má nefna lánssamning vegna Vaðlaheiðarganga upp á 8,7 milljarða.

Ríkisstjórnin samþykkti einnig í haust að afla heimilda í fjárlögum næsta árs til að auka stofnfé Íbúðalánasjóðs um allt að 13 milljarða króna.

Í lok janúar hélt ríkisstjórnin fund á Selfossi og þar var samþykkt að skuldbinda ríkissjóð um milljarða vegna verkefna á Suðurlandi. Skrifað var undir samning um hönnunarsamkeppni vegna stækkunar á verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði boðnar út í september á þessu ári. Áætlaður kostnaður er um 650 milljónir en ríkissjóður greiðir 60% kostnaðarins.

Á fundinum var einnig sagt frá því að áformað væri að hefja í byrjun næsta árs framkvæmdir við endurbætur á eldri hluta sjúkrahússins á Selfossi, en áætlaður kostnaður við framkvæmdir er 1.360 milljónir. Ennfremur voru undirritaðir samningar um uppbyggingu þekkingarsetra og fleira.

Fleira má nefna varðandi nýjar skuldbindingar ríkissjóðs. Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin t.d. að setja einn milljarð á ári í 10 ár (samtals 10 milljarða) til að efla almenningssamgöngur. Á síðasta ári gengu stjórnvöld ennfremur frá framlengdum samningum við bændur þar sem m.a. framlög til ráðgjafaþjónustu eru aukin. Þá má nefna áform um byggingu nýs Landspítala, en stjórnvöld stefna að því að ganga frá fjármögnun spítalans fyrir vorið.

Tekið skal fram að þessi upptalning gefur ekki endilega heildarmynd af nýjum útgjöldum sem stjórnvöld hafa, á síðustu misserum, ákveðið að ráðast í.

Það er ekki nýtt að ríkisstjórnir séu duglegar að lofa nýjum ríkisútgjöldum í aðdraganda kosninga. Raunar má segja að það sé reglan frekar en hitt.

Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Selfossi í janúar þar sem kynnt …
Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Selfossi í janúar þar sem kynnt voru ný útgjöld vegna verkefna á Suðurlandi.
Oddný Harðardóttir kynnti í haust fjárlagafrumvarp þar sem ákveðið var …
Oddný Harðardóttir kynnti í haust fjárlagafrumvarp þar sem ákveðið var að ráðast í ný útgjöld fyrir 9,5 milljarða vegna „bættrar rekstrarstöðu ríkissjóðs“. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert