Stjórnvöld geta ekki boðið meira

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir mbl.is/Styrmir Kári

Ríkisstjórnin er öll af vilja gerð að hækka kjör heilbrigðisstarfsfólks en meiri peningar eru hins vegar ekki í boði. Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hún sagðist vona að hjúkrunarfræðingar og læknar hætti samt við að segja upp störfum.

Hún sagði niðurskurðinn á Landspítalanum eftir hrun nema um 5 milljörðum króna á verðlagi ársins í ár. Björn Zoëga forstjóri LSH hefur áður sagt að frá árinu 2007 hafi verið skorið niður um 9 milljarða á spítalanum.

Sérkennilegt að stilla þessu upp sem kjarasamningum

„Við getum ekki hækkað meira en boðið hefur verið í þessu fyrsta skrefi öðru vísi en að fara í miklar lántökur. Það er ekki fleiri peninga að sækja, því miður,“ sagði Katrín um þær 370 milljónir króna sem ríkisstjórnin ætlar að veita til endurskoðunar stofnanasamnings hjúkrunarfræðinga við Landspítala.

Katrín sagði það svolítið sérkennilega stöðu að þessu sé stillt upp eins og kjaraviðræðum þegar svo sé í reynd ekki. Þeir karasamningarnir sem gerðir voru 2011 séu í gildi til 2014 með svo kallaðri friðarskyldu og ekki hafi verið gert ráð fyrir nýjum peningum í stofnanasamninga á þessu tímabili.

Aðspurð sagðist Katrín þó ekki vera að saka hjúkrunarfræðinga um að rjúfa friðarskylduna. „Þetta eru sjálfstæðar uppsagnir einstaklinga,“ sagði ráðherrann. Hún sagði ríkisstjórnina hafa ákveðið að hækka laun kvennastéttanna í landinu og heilbrigðisstéttir séu stór hluti af því. 

„Vona að þeir fari ekki“

Þess vegna hafi verið ákveðið að veita þessar milljónir og auk þess hafi ríkisstjórnin boðist til þess að undirrita yfirlýsingu samhliða samþykkt nýs stofnanasamnings um að þetta sé aðeins fyrsta skrefið til að jafna launin og muni ekki hafa áhrif í næstu kjarasamningum. Meira sagði hún ríkisstjórnina ekki geta gert. „Það er nýbúið að loka fjárlögum þannig að svigrúmið hjá okkur er mjög lítið.“

Aðspurð hvort hún væri þá að segja að ekkert væri við því að gera þótt tugir lækna og hjúkrunarfræðinga hætti störfum á spítalanum sagði Katrín: „Ég er að vona að þeir fari ekki og að við náum niðurstöðu í þetta mál. Ég er bara að reyna að lýsa þröngri stöðu ríkissjóðs. Ég geri ráð fyrir og vona að menn nái samkomulagi.“

280 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum á Landspítalanum og hætta flestir þeirra störfum næstu mánaðamót að óbreyttu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert