Lentu í Kanada vegna bilunar

mbl.is/Eggert

Farþegavél Icelandair sem var á leið frá Seattle í Bandaríkjunum til Keflavíkur varð að lenda á flugvelli í Edmonton í Kanada vegna bilunar sem kom upp í nótt. Vélin var búin að vera á flugi í um eina og hálfa klukkustund þegar flugmenn urðu varir við bilun í mótor.

Vélin átti að lenda á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Um 160 manns voru um borð.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að vélin hafi lagt af stað samkvæmt áætlun frá Seattle í gærkvöldi að staðartíma. „Þegar hún var búin að fljúga í einn og hálfan tíma, eða svo, kom fram bilun í mótor og þannig að þeir ákváðu að lenda í Edmonton,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Guðjón að þetta hafi gengið án vandræða og að farþegar hafi orðið einskis varir. Þegar vélin lenti í Edmonton var farið með farþegana á hótel.

Þá segir Guðjón að önnur vél verði send til að sækja farþegana í dag og búist er við að þeir muni lenda á Íslandi í nótt. Hann segir að 156 farþegar hafi verið um borð og sex manna áhöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert