Tveir menn beruðu sig við Stjórnarráðið

Sprettharða sprelligosa er að finna um víða veröld. Úr safni.
Sprettharða sprelligosa er að finna um víða veröld. Úr safni. AFP

Tveir kviknaktir menn sáust á harðahlaupum á lóð Stjórnarráðsins í Lækjargötu í nótt að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Óljóst er hvað mönnunum gekk til en þó má fullvíst telja að þeir voru ekki á leið á ríkisstjórnarfund.

Vitni, sem sá til strípalinganna, hafði samband við lögreglu, en þegar hún kom á vettvang voru mennirnir á bak og burt.

Að sögn tilkynnanda höfðu hinir allsberu klætt sig úr fötunum í biðskýli sem er gegnt Stjórnarráðinu, gengið yfir götuna og síðan hlaupið um lóðina, eins og áður sagði. Eftir uppátækið fóru mennirnir aftur í biðskýlið og klæddu sig í spjarirnar áður en þeir hurfu sjónum.

„Athæfi þeirra er ekki til eftirbreytni og er m.a. brot á lögreglusamþykkt. Hitt ætti líka öllum að vera ljóst að það að hlaupa um nakinn í frosti getur auðveldlega komið manni í rúmið með slæmt kvef og mikinn hita,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert