Harmar hægagang í stjórnlagamálinu

Ari Teitsson.
Ari Teitsson.

„Það verður líka að taka það með í reikninginn að málið gekk mjög hægt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það tókst ekki að ná þeirri efnislegu umræðu í nefndinni sem hefði þurft að vera,“ segir Ari Teitsson, fyrrverandi varaformaður stjórnlagaráðs, sem harmar að ekki skyldi fara fram dýpri efnisleg umræða um stjórnarskrárfrumvarpið.

Ari segir bæði ríkisstjórnina og stjórnarandstöðuna bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir málinu.

„Það hefur vantað mikið upp á að þar fari fram sú breiða efnislega umræða sem hefði þurft að vera og stjórnarandstaðan dró þar lappirnar, að því er ég best veit, en auðvitað hefði hinn hlutinn líka þurft að taka fastar á málinu. Það semmér þykir dapurlegt er hversu málið hefur gengið hægt og það er auðvitað bæði stjórn- eða stjórnarandstöðu að kenna. Það verður líka að taka það með í reikninginn að málið gekk mjög hægt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það tókst ekki að ná þeirri efnislegu umræðu í nefndinni sem hefði þurft að vera. Það var ekkert síður stjórnarandstöðunni að kenna.

Mín skoðun er sú að æskilegt væri að ná samstöðu um að fara að tillögum stjórnlagaráðs varðandi hvernig stjórnarskrá skuli breytt, þ.e.a.s. að þingið þyrfti fyrst að samþykkja nýja stjórnarskrá og síðan færi hún í þjóðaratkvæði.

Ef það væri gert núna væri hægt að halda áfram á næsta ári eða næstu tveimur árum eftir því sem þarf og þá þyrfti ekki að bíða eftir næstu kosningum til að afgreiða málið. Þannig að ég tel að forsendan fyrir því að það sé skynsamlegt að fresta málinu núna sé að það náist samkomulag um að stjórnarskrárbreytingar þurfi ekki að fara í gegnum tvö Alþingi. Það skiptir höfuðmáli í því hvernig menn sjá framhaldið.“

Hefði viljað sjá dýpri umræðu

- Sárnar þér hvernig umræðan hefur þróast?

„Já, ég batt vonir við það að það væri hægt að taka efnislega umræðu um þetta á þessum tæpu tveimur árum sem eru liðin frá því að við skiluðum tillögunum og eru fram að kosningum. Mér þykir dapurlegt hvernig málið hefur verið leikið. Það hvarflaði aldrei að mér að þetta væri fullbúið mál enda átti Alþingi að fjalla um þetta ítarlega og efnislega og náttúrlega fleiri aðilar.

Það hefur því miður skort vilja hjá einhverjum hluta þjóðarinnar til að koma málinu áfram. Sem hefði þurft að gerast með ítarlegri efnisumræðu og þá breytingum á því sem breyta þurfti en það er kannski engin furða því það hefur aldrei tekist með pólitískri samstöðu að breyta neinu teljandi í stjórnarskránni. Menn eru búnir að reyna það síðan 1944. Sú aðferð var kannski aldrei fær.“

Auðveldara að rífa niður en byggja upp 

- Hvernig finnst þér þjóðmálaumræðan hafa verið?

„Mér finnst þessi faglega umræða hafi alltof mikið beinst að því að rífa niður fyrirliggjandi frumvarp án þess að koma með tillögur um hverju skyldi breyta. Ástæðan fyrir því að þetta er þannig er sú að það er þekkt í umræðu að það er óskaplega létt að rífa niður en strax og menn koma með tillögur um það hvernig eigi að hafa hlutina fara þeir að fá gagnrýni á það.

Það má til dæmis nefna að lögfræðingahópurinn sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin fól að skoða vissa þætti og gera tillögur. Það var þegar farið að rífa þær niður þegar þær komu. Þannig að það er alveg sama hvaða tillögur verða gerðar. Þær verða alltaf gagnrýndar. Alþingi verður að hafa kjark til þess að ræða málin ítarlega, bæði stjórn og stjórnarandstaðan, og taka síðan efnislega afstöðu. Það hefur ekki gerst.“

- Hversu raunhæft telurðu að það takist að afgreiða málið eins og það lítur út núna með breytingum á þessu þingi?

„Ég þekki svo sem ekki nákvæmlega hvernig málið er statt í þinginu en ég á síður von á því að þetta verði samþykkt í heild sinni. Það væri hægt. Í fyrsta lagi er ekkert sem segir að Alþingi verði að ljúka á þessum degi sem að boðaður hefur verið. Í öðru lagi ef stjórnarandstaðan segir að þetta sé ekki raunhæft og neitar að ræða það að þá verður það auðvitað ekki.“

 Gerði alltaf ráð fyrir breytingum

- Hverjar voru væntingar ykkar þegar þið skiluðuð þessu frá ykkur á sínum tíma? Voru það almennar væntingar innan ráðsins að frumvarpið yrði samþykkt nokkurn veginn í heild eins og það lá fyrir frá nefndinni?

„Nei, ekki mínar. Ég gerði alltaf ráð fyrir því að þetta færi í ítarlega og efnislega umræðu á Alþingi og að Alþingi myndi gera á því breytingar.“

- Þannig að þetta hafa verið fleiri en ein og fleiri en tvær sem þið hafið búist við?

„Stjórnarskrárfrumvarp er þess eðlis að það er alltaf mikið álitamál um orðalag og efni og svo framvegis. Hins vegar mátti ég vita að Alþingi myndi aldrei koma sér saman. Það hefur aldrei gert það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert