Ekki í háskaför í fyrsta sinn

Fjórir af þeim fimm sem bjargað var úr bílnum við …
Fjórir af þeim fimm sem bjargað var úr bílnum við Landmannalaugar í gærkvöld ásamt flugmanni. mbl.is/Golli

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er bíllinn sem situr fastur í vaði við Landmannalaugar í eigu íslenskrar ferðaskrifstofu. Lögreglan segir jafnframt að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem bjarga þarf fólki úr háska í skipulagðri ferð á vegum ferðaskrifstofunnar. Lögreglan vill ekki greina frá um hvaða ferðaskrifstofu ræði.

Málið er í rannsókn lögreglu og verið að kanna hver sé ábyrgð ferðaskrifstofunnar. Allt kapp verði lagt á að ná bílnum úr ánni sem fyrst. Lögreglan vill hins vegar koma því á framfæri að óalgengt sé að svona nokkuð hendi í skipulögðum jeppaferðum.

Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hefur verið tilkynnt um málið en eftirlitið hefur ekki enn fengið nægilegar upplýsingar til að hefja rannsókn á hvort mengunarslys sé yfirvofandi.

Að sögn Svans Lárussonar, formanns Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, er færðin þokkaleg langleiðina að Landmannalaugum, en svo taki við hafsjór af krapa. Hann telur litlar líkur á að bíllinn færist úr stað, þar sem hann er bæði stór og sennilega fullur af vatni. 

Björgunarsveit á Hvolsvelli, sem hugðist fara á vettvang og taka myndir af bílnum sneri við þegar ljóst var að búið væri að bjarga fólkinu. Smári Sigurbjörnsson, formaður Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, sagði í samtali við mbl.is að hann og hans menn hafi ekki séð tilgang í að reyna að komast að bílnum. Bæði hafi bílar björgunarsveitarinnar fests nokkrum sinnum á leiðinni, auk þess sem skollið var á niðamyrkur og erfitt að athafna sig á svæðinu.

Svanur og Smári sögðu báðir að lítið sem ekkert hefði verið um útköll vegna vatnavaxtanna á svæðinu. 

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert