„Útfararræður stjórnarskrárinnar“

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Þór Saari segir að 6. mars 2013 verði meitlaður í söguna sem einn af sorgardögum lýðveldisins Íslands. Hann kallaði ræðu sína og annarra þingmanna í 2. umræðu um stjórnskipunarlög útfararræðu stjórnarskrárinnar. 

„Hér á Alþingi Íslendinga er núna í dag í þessum töluðu orðum verið að hafna því að klára málið [...] Hér er í dag á Alþingi fólk sem ég veit persónulega að hefur sannfæringu fyrir því að þessi stjórnarskrá eigi að vera ný stjórnarskrá Íslendinga en ætla ekki að kjósa með því heldur að fylgja lítilli klíku.“

Sátt um fátt annað en matseðil vikunnar

Þór sagði að með þessum gjörningi hefði lýðræðinu verið hent og lítil klíka tekið við völdum. Sagðist hann velta því fyrir sér hver framtíðarsýn þessa fólks væri nú við lok kjörtímabilsins og benti á að þingið hefði enn ekki sett sér siðferðisreglur eftir hrun en það hefði hins vegar „endurreist bankakerfið með sömu reglum og því voru settar fyrir hrun“.

Hann sagði Alþingi ekki skila því sem það ætti að gera. „Alþingi Íslendinga birtist mér hér í dag sem misheppnuð stofnun sem hefur í raun ekki tilverurétt [...] Það er algjörum tilviljunum háð hvaða frumvarp verður hér að lögum. Það eina sem menn geta komið sér saman um er fjárlagafrumvarpið og matseðill vikunnar.“

Vélað í bakherbergjum

Benti hann á að 76 þingmál biðu nú afgreiðslu og sagði mörg þeirra góð mál en stjórnarskrármálið það mikilvægasta. Þessi mál yrðu nú afgreidd út af borðinu í baktjaldamætti. Vélað væri um það í bakherbergjum hvaða mál ættu að fá framgang og hver ekki.

„Það er ömurlegt að verða vitni að þessu, að standa hér í dag og þurfa að tala með þessum hætti. Í dag er þessi ræða og allar sem fluttar verða hér útfararræður stjórnarskrárinnar.“

Þór sagðist vona að almenningur myndi minnast þessa dags.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert