„Heimilin eiga að vera í fyrirrúmi“

Bjarni Benediktsson á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Málefni heimilanna eiga að vera í fyrirrúmi,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hann sagði að auka þyrfti hagvöxt sem væri lítill. Hann gagnrýndi skuldasöfnun ríkissjóðs. Hallinn á ríkissjóði hefði verið 60 milljarðar í fyrra og hefði verið 300 milljarðar á árunum 2010, 2011 og 2012.

„Skuldir heimilanna hafa vaxið gríðarlega, eignir rýrnað og þúsundir fjölskyldna berjast í bökkum. Það líður vart sá dagur að ég heyri ekki frá fólki í þessu landi sem er við það að gefast upp. Það á jafnt við einstæðinga, barnafjölskyldur, öryrkja og eldri borgara sem hafa þurft að sæta óheyrilegum, ósanngjörnum skerðingum,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði að atvinnulífið væri í dróma. Ný störf væru ekki að verða til og það skortir alla fjárfestingu. Skattar væru líka of háir og of flóknir.  „Það er 1501 dagur frá því að þessi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs tók við. Á þeim tíma hefur hún gert hátt í 200 breytingar á skattkerfinu. Hækkað skatta, aukið flækjustig og lagt á ný gjöld.“

Bjarni rakti helstu áherslur Sjálfstæðisflokksins í málefnum heimilanna. Það ætti að gefa tekjuskattsafslátt vegna afborgana af lánum. Í öðru lagi að fleyta séreignarsparnaði beint inn á lán, án skattlagningar.  Í þriðja lagi að lækka og einfalda skattana þannig að krónum í launaumslaginu fjölgi.

Bjarni sagði að það þyrfti líka að endurskipuleggja húsnæðislánamarkaðinn og setja skýra stefnu gegn almennri verðtryggingu. Í staðinn komi óverðtryggð lán með föstum vöxtum.

„Með þessum aðgerðum getum við á örfáum árum aðstoðað heimilin við að lækka höfuðstól húsnæðislána í kringum 20%.“

Bjarni sagði að nýjar tölur Hagstofunnar sýndu stöðnun í atvinnulífinu. „Hagvöxt upp á 1,6% á síðasta ári. Hver er helsta ástæðan? Jú, atvinnulífið heldur að sér höndum. Fjárfesting er botnfrosin, þrátt fyrir sérstaka áætlun ríkisstjórnarinnar um opinbera fjárfestingu,“ sagði Bjarni.

Lækka þarf tryggingagjaldið

Bjarni sagði nauðsynlegt að  setja kraft í atvinnulífið og fyrsta verkefnið ætti að vera að lækka og einfalda skatta á fyrirtæki. Tryggingagjaldið væri efst á lista, enda væri það hreinn skattur á að ráða fólk til starfa.

„Í lok janúar voru rúmlega níu þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Það væri ráð að létta byrðar fyrirtækjanna svo þau geti virkjað þetta fólk til starfa og borgað því laun fyrir að skapa verðmæti.“

„Ný ríkisstjórn verður að hefjast strax handa með þær aðgerðir í forgrunni sem ég hef hér rakið og bjóða aðilum vinnumarkaðar til samstarfs. Strax að afstöðnum kosningum verður að láta reyna á samhent átak stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um að hefja nýja sókn með vöxt og aukinn stöðugleika sem meginmarkmið.

Mörg jákvæð teikn eru á lofti um vaxandi skilning á mikilvægi þess að ný þjóðarsátt líti dagsins ljós. Með því væri mikilvægur hornsteinn endurreisnarinnar lagður, því heimilin og atvinnulífið eiga svo mikið undir því að okkur takist að kveða niður verðbólguna. Mikilvægur liður í því er að tryggja að kjarabætur haldist í hendur við aukna verðmætasköpun,“ sagði Bjarni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka