Starfsáætlun þingsins „ekkert heilög“

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að starfsáætlun þingsins, sem gerir ráð fyrir þinglokum á morgun, væri „ekkert heilög“ í hennar huga og að þingmenn gætu „vel unnið fram í næstu viku“ og lokið stórum málum ætti eftir að klára. Þar á meðal stjórnarskrármálið og „ýmis stór mál sem snerta heimilin í landinu og atvinnulífið.“

Jóhanna Sigurðardóttir var þar að svara fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, sem spurði forsætisráðherra hvort hún væri sammála því frumvarpi sem formenn Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar hefðu lagt fram um afgreiðslu stjórnarskrármálsins á þessu kjörtímabili þar sem gert er ráð fyrir að einungis verði gerðar afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni og stefnt að því að halda málinu áfram að lokum kosningum. Meðal annars varðandi auðlindamál og breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

„Ég hefði auðvitað viljað að við hefðum getað gengið miklu lengra og náð miklu stærri áfanga á þessu kjörtímabili heldur en í stefnir og að við hefðum getað klárað stjórnarskrána og finnst mér raunar að ekkert sé að vanbúnaði til þess ef að þingmenn tækju sér nú nokkra daga til þess að ræða það ágæta álit sem að hefur komið frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um heildarendurskoðun á stjórnarskránni. En það er alveg ljóst að til þess er ekki vilji í stjórnarandstöðunni,“ sagði Jóhanna og ennfremur:

„Miðað við það að við höfum ekki náð lengra með stjórnarskrána þá finnst mér það alveg ganga að samþykkja slíkt breytingarákvæði svo við getum undið okkur í það verkefni sem við áttum auðvitað að klára á þessu kjörtímabili að endurskoða stjórnarskrána.“ Hvatti hún Vigdísi til þess að beita sér fyrir því innan Framsóknarflokksins að samstaða næðist um breytingar á stjórnarskránni varðandi auðlindamál, beint lýðræði og því hvernig henni væri breytt.

Vigdís spurði forsætisráðherra ennfremur hvort hún teldi ástæðu til þess að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar í ljósi þess að samkvæmt núgildandi ákvæði hennar væri ekkert því til fyrirstöðu að breyta henni á miðju kjörtímabili, rjúfa þing og boða til kosninga. Sagðist Jóhanna telja breytingu á því ákvæði nauðsynlega til þess að ekki þyrfti að borða til kosninga vegna stjórnarskrárbreytinga. Sagði hún annars freistandi tilhugsun að hægt yrði að rjúfa þing á næsta kjörtímabili og boða til kosninga „ef að svo illa fer að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komast til valda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert