ESB eitt brýnasta kosningamálið

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er bara ekkert nýtt í því heldur að talsmenn Samtala iðnaðarins vilji ganga í Evrópusambandið. Það eru engar nýjar fréttir,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í morgun. Með þeim ummælum var hann að bregðast við orðum Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem vitnaði til ræðu formanns Samtaka iðnaðarins, Svönu Helenu Björnsdóttur, á Iðnþingi í gær um að það væri glapræði að hætta viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Björgvin sagði í ræðu sinni að enn bættist í hóp þeirra fulltrúar atvinnulífsins sem hefðu uppi hávært ákall til Alþingis um að ljúka viðræðunum við Evrópusambandið og vísaði þar til ræðu Svönu Helenar. Sagði hann að farsæl lúkning viðræðnanna væri eitt brýnasta kosningamálið og ánægjulegt væri að þeim stjórnmálaflokkum sem vildu ljúka þeim hefði fjölgað. Vísaði hann þar til Bjartrar framtíðar. Björgvin sagði það vekja áhyggjur að Sjálfstæðisflokkurinn, sem lengi hafi talist einn helsti málsvari atvinnulífsins á vettvangi stjórnmálanna, boðaði nú hörðustu andstöðuna við inngöngu í Evrópusambandið. Beindi hann þeim spurningum að fulltrúum flokksins hvers vegna ekki mætti klára viðræðurnar og bera endanlegan samning undir þjóðina.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Björgvini að hún teldi rétt að klára viðræðurnar við Evrópusambandið. Hins vegar sagði hún þversagnir í málflutningi Samfylkingarinnar. Flokkurinn hafi þannig beitt sér gegn því að sjávarútvegur á Íslandi gæti borið sig á grundvelli markaðslausna og reynt þess í stað að koma honum inn í félagslegt kerfi sem þýddi að staða hans innan Evrópusambandsins yrði mjög erfið. Það færi betur á því að þingmenn Samfylkingarinnar tækju fyrst til heima hjá sér áður en þeir færu að agnúast út í afstöðu annarra flokka til þessara mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert