Heimilisofbeldi á sér stað daglega

Mörg börn á Íslandi verða vitni að heimilisofbeldi.
Mörg börn á Íslandi verða vitni að heimilisofbeldi. mbl.is/Kristinn

Að jafnaði eru rúmlega 1.200 mál skráð hjá lögreglu sem skilgreind eru sem heimilisófriður. Þar af eru rúmlega 300 mál sem skilgreind eru sem heimilisofbeldi.

Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, alþingismanns Framsóknarflokksins, um heimilisofbeldi.

Í svarinu kemur fram að í fyrra voru 1.294 „heimilisófriðarmál“ skráð í málaskrá lögreglu, þar af 327 sem skilgreind eru sem heimilisofbeldi. Það lætur því nærri að lögreglan sé kölluð út einu sinni á dag vegna heimilisofbeldis.

Heimilisófriður, sem lögreglan skilgreinir sem „ágreiningur“ voru flest á árunum 2007 og 2008. Þessum málum fækkaði eftir hrun. Heimilisofbeldismálum fækkaði líka aðeins eftir hrun, en þeim hefur fjölgað síðan og málin hafa aldrei verið fleiri en í fyrra. Heimilisofbeldismálum í janúar og febrúar á þessu ári voru 62, sem þýðir að lögreglan fékkst við eitt slíkt mál að melatali á dag.

Í svarinu kemur fram að eftir að lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, voru sett árið 2011 hafa átta slík tilfelli verið skráð samkvæmt málaskrárkerfi lögreglunnar.

Í skýrslu sem UNICEF lét gera um stöðu barna á Íslandi árið 2011 segir að reikna megi með því að 2000-4000 börn séu þolendur heimilisofbeldis eða búi við heimilisofbeldi, á ári hverju á Íslandi. Ef 2000 börn eru þolendur heimilisofbeldis á ári hverju, er tilkynnt um aðeins 14% þeirra til barnaverndarnefnda. Í skýrslunni segir að gríðarleg þörf sé á rannsóknum á raunverulegu umfangi heimilisofbeldis á Íslandi. „Engar formlegar forvarnir eru til gegn heimilisofbeldi – aðeins viðbrögð við ofbeldinu,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert