„Síðasti séns fyrir mig að taka þátt“

Vilhjálmur Óli Valsson safnaði rúmlega 1,2 milljónum króna fyrir Mottumars …
Vilhjálmur Óli Valsson safnaði rúmlega 1,2 milljónum króna fyrir Mottumars krabbameinsátakið. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég gerði í sjálfu sér ósköp lítið sjálfur, stuðningsnetið mitt er einfaldlega svona stórt og sterkt,“segir Vilhjálmur Óli Valsson, stýrimaður, sjúkraflutningamaður og sigurvegari Mottumars. Vilhjálmur safnaði 1.275.000 kr. Hann er sjálfur nýhættur í árangurslausri meðferð gegn vélindakrabbameini og segir söfnunina skipta miklu máli.

Fjármagn þarf til rannsókna og forvarna

„Það var síðasti séns fyrir mig að taka þátt núna því ég sé ekki fram á að ég geti verið með á næsta ári, en ég vona svo sannarlega að þessi söfnun, Mottumars, sé komin til að vera,“ segir Vilhjálmur.

„Það skiptir engu máli á hvaða nafn áheitin eru lögð að mínu mati, bara að peningurinn komi inn. Það vantar pening í þessi verkefni, við vitum að það gerist ekkert nema fjármagnið komi inn. Við sjáum það á árangrinum í baráttunni gegn krabbmeinum kvenna, þar hefur áherslan verið á brjósta- og leghálskrabbamein og þar hefur kraftaverk unnist síðustu 30 ár. Þannig að þetta skiptir máli.“

Margt smátt gerði eitt stórt

Þetta er í annað sinn sem Vilhjálmur safnar mottu til stuðnings þessa málefnis, en í fyrra safnaði hann 35 þúsund krónum. Í ár safnaði hann því 1.240.000 krónum meira en síðast. Hann segir söfnunina hafa gengið vel hjá sér frá fyrsta degi þótt hann kunni enga sérstaka skýringu á því.

„Markmiðið í upphafi var að safna 150 þúsund krónum sem datt nú bara inn strax á fyrstu dögunum, þannig að þetta hefur gengið vonum framar. Það vantar einn upp á að þetta séu 200 áheit við nafnið mitt og það er það sem ég er ánægðastur með, að megnið af þessu eru lágar upphæðir en það er fjöldinn sem telur.“

Lokaskrefin í baráttunni við meinið

Vilhjálmur þekkir krabbamein af eigin raun og málefnið stendur honum því nærri. „Ég greindist í lok mars í fyrra svo það er komið akkúrat ár núna. Ég byrjaði í meðferð í apríl, en það gengur ekki vel. Meðferð hefur verið hætt og ég er bara að taka mín lokaskref í þessari baráttu.“

Verðlaunin fyrir fyrsta sætið í áheitakeppninni eru, auk titilsins Mottan 2013, vikuferð fyrir tvo til Almería á Spáni. Hann er ánægður með úrslitin en sér þó ekki fram á að geta nýtt verðlaunin sjálfur. „Ég á ekki von á því að geta farið út, nei. En þetta mun koma að gagni innan fjölskyldunnar. Við erum með fjögur börn hjónin, þannig að þetta mun nýtast vel.“ 

Enn hægt að heita á skegg

Klukkan 16 í dag höfðu alls safnast 25.521.849 krónur í Mottumars átakinu. Þrátt fyrir að keppninni sjálfri sé lokið er enn hægt að heita á yfirvaraskegg á heimasíðunni mottumars.is.

Vilhjálmur segir að ekki veiti af hverri einustu krónu í rannsóknir og forvarnir  gegn krabbameini karla. „Það er mjög gleðilegt að fólk sé aflögufært og sé tilbúið að leggja þessu lið.“

Áheitasíða Vilhjálms Óla Valssonar

Vilhjálmur Óli er stýrimaður, sigmaður og sjúkraflutningamaður en hann hefur …
Vilhjálmur Óli er stýrimaður, sigmaður og sjúkraflutningamaður en hann hefur barist við illvígt krabbamein undanfarið ár.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert