Prestar eiga ekki að leita sátta í ofbeldismálum

Guðný Jóna Kristjánsdóttir.
Guðný Jóna Kristjánsdóttir. Skjáskot úr Kastljósi.

Það á aldrei að vera hlutverk presta að vera sáttargjörðaraðili milli þolenda og gerenda í ofbeldismálum. Þetta skrifar Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum.

Sólveigu hefur verið falið af biskupi Íslands að skoða aðkomu prestsins á Húsavík í máli Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur, sem kom fram í Kastljósi í fyrrakvöld og sagði frá eftirmálum nauðgunar sem hún varð fyrir árið 1999.  Fundur hefur verið boðaður með sóknarprestinum og sóknarnefnd á Húsavík í dag síðdegis.

Á bloggi Sólveigar Láru segir:

Eftir þá skoðun mun ég skýra út hvernig aðkoma presta á að vera þegar skjólstæðingar hafa orðið fyrir ofbeldi.  Þeir minnispunktar fara hér á eftir:

  1. Það á aldrei að vera hlutverk presta að vera sáttargjörðaraðili milli þolenda og gerenda í ofbeldismálum.
  2. Prestur er sálusorgari í þeim skilningi að hann eða hún hlustar á alla og sýnir þeim skilning og veitir þeim styrk.
  3. Það er mikilvægt að þolendum ofbeldis sé trúað og þeim veitt sú faglega hjálp og stuðningur sem viðkomandi þarf á að halda.
  4. Gerendur geta líka leitað til presta og þau hlusta á alla, en taka aldrei afstöðu með ofbeldismönnum.
  5. Þegar um ofbeldissambúð er að ræða eiga prestar ekki að leita sátta, heldur hjálpa þolandanum út úr ofbeldissambúðinni.
  6. Prestar veita sálgæslu í fangelsum meðal dæmdra sakamanna, en samþykkja aldrei glæpinn sem framinn hefur verið.
  7. Þegar klofningur verður í samfélögum er hlutverk prestsins á hlusta á einstaklinga, en ekki hópa.  Það er síðan vettvangur predikunarstólsins að boða sátt í samfélaginu, ekki með því að ágreiningurinn sé þaggaður niður heldur að hver og einn fái umhugsunarefni til að taka afstöðu til.
  8. Það er mikilvægt að setja sig ekki í dómarasæti hvorki yfir þolenda né gerenda.  Þolandi á rétt á því að fá stuðning samfélagsins, en gerandinn fær sinn dóm frá dómstólum.

Lærdómur:  Mikilvægt frá kirkjunnar hálfu að allir prestar geri sér grein fyrir þessum grundvallaratriðum.

Séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir.
Séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert