Mistök að hafna kröfu um frest

Hörður Felix Harðarson, Hreiðar Már Sigurðsson, Karl Axelsson og Sigurður …
Hörður Felix Harðarson, Hreiðar Már Sigurðsson, Karl Axelsson og Sigurður Einarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lektor í refsirétti við Háskóla Íslands telur að í ljósi reglna um réttláta málsmeðferð hafi það verið mistök að verða ekki við kröfu verjenda í Al-Thani-málinu um hæfilegan frest til að kynna sér gögn sem lögð voru fram við síðustu fyrirtöku fyrir aðalmeðferð. Mun lengri dráttur verður á málinu fyrir vikið.

Eins og fram kom á mbl.is í morgun var aðalmeðferð í Al-Thani-málinu frestað um ótilgreindan tíma þar sem tveir verjendur sakborninga báðust lausnar. Dómari sem áður hafði synjað bóninni kvaðst í morgun engra kosta völ hafa, leysti verjendurna frá störfum og skipaði nýja í þeirra stað. Því næst frestaði hann aðalmeðferð til að nýir verjendur geti kynnt sér gögn málsins, sem telja um 10 þúsund blaðsíður. Talið er víst að málið muni frestast langt fram á haust.

Saksóknari hjá sérstökum saksóknara krafðist þess í kjölfarið að dómari legði á lögmennina tvo réttarfarssekt, þar sem framferði þeirra bryti í bága við lögbundnar skyldur þeirra. Þar vísaði hann til 20. gr. laga um lögmenn og 2. mgr. 223. gr. laga um meðferð sakamála. Dómari málsins sagði ekki skilyrði til að kveða upp um slíkar sektir að þessu sinni.

Orðrétt segir í 20. gr. laga um lögmenn: „Lögmanni er skylt að taka við skipun [eða tilnefningu]) sem verjandi eða réttargæslumaður í [sakamáli]) enda fullnægi hann til þess hæfisskilyrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna að gæta vegna sjálfs sín, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda síns.“

Þá segir í 223. gr. sakamálalaga að ákveða megi sekt á hendur verjanda ef hann veldur af ásetningi óþörfum drætti á máli. Dómari ákveður sektina af sjálfsdáðum og renna þær í ríkissjóð. Réttarfarssektir eru ákveðnar þegar dómur gengur í málum og því óvíst hvort verjendurnir verða sektaðir fyrr en dómur verður kveðinn upp.

Vantar umræðu um sjónarmið verjendanna

Í byrjun vikunnar boðuðu Gestur Jónsson og Ragnar H Hall, verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, til blaðamannafundar þar sem þeir tilkynntu fjölmiðlum að þeir hefðu sagt sig frá málinu. Í yfirlýsingu þeirra sagði m.a.: „Þá hefur verjendum verið synjað um frest til gagnaöflunar sem þeir telja nauðsynlegt að undirbúa vörn í málinu. Á sama tíma hafa dómstólar látið ákæruvaldið komast upp með málatilbúnað sem fer augljóslega í bága við ákvæði laga um meðferð sakamála.“

Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands, segir sérstakt að umræðan hafi að öllu leyti snúið um það atriði að þeir segi sig frá málinu en ekki um þau efnislegu sjónarmið sem þeir höfðu fram að færa fyrir ákvörðuninni. „Ég tel að eðlilegt sé að málefnaleg umræða fari fram um þau atriði, enda eru mikilvæg mannréttindasjónarmið þar undir. Þetta eru reyndir og góðir lögmenn og þekkja málið mun betur en þeir lögmenn sem hafa verið að gagnrýna ákvörðun þeirra. Þeir eru það reyndir í faginu að þeir fara ekki út í svona aðgerð nema þeir telji það þjóna hagsmunum umbjóðenda sinna. Hlutverk lögmanna er m.a. að efla rétt og að hrinda órétti en ekki að standa í einhverri vinsældakosningu úti í samfélaginu.“

Hluti af réttindum sakborninga

Við fyrirtöku í málinu 7. mars lagði saksóknari fram ný gögn og voru verjendur afar ósáttir við að þrátt fyrir það skyldi tímasetningu aðalmeðferðar ekki seinkað. „Það kemur bara á daginn að málið er ekki tilbúið til aðalmeðferðar að okkar áliti. Það er verið að láta okkur hafa gögn í dag sem skipta verulegu máli og kunna að kalla fram á frekari gagnaöflun af okkar hálfu. Og tíminn til þess er mjög stuttur,“ sagði Ragnar H. Hall í samtali við mbl.is eftir fyrirtökuna.

Jón Þór segir að það sé hluti af réttindum sakborningum, sem tryggð eru í Mannréttindasáttmála Evrópu, að fá nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. Ekki sé hægt að leggja fram ný gögn í síðasta þinghaldi fyrir aðalmeðferð og vísa svo til þess að ákæra hafi verið gefin út fyrir ári síðan. „Ég tel að það sé hluti af þeim réttindum að menn fái nægilegan frest til að fara yfir gögnin og athuga hvort þau kalli á frekari gagnaframlagningu. Menn verða að fá að kynna sér gögnin og sjá hvaða áhrif þau geta haft á vörnina.“

Hann bendir á að rannsókn málsins hafi tekið langan tíma hjá sérstökum saksóknara enda sé það bæði umfangsmikið og flókið en málið sé ekki það eina sem verjendur hafi með höndum. Þeir hafi fleiri verkefni og verði að passa að öll gangi vel fyrir sig. „Ég tel, í ljósi reglna um réttláta málsmeðferð, að það hafi verið mistök að verða ekki við kröfu verjenda um hæfilegan frest til að kynna sér gögnin og undirbúa sig. Sú ákvörðun hefur orðið til að draga málið langt fram á haust í stað þess að veittur var 6-8 vikna frestur og málið hefði klárast í júní.“

Jón Þór Ólason.
Jón Þór Ólason. Þorvaldur Örn Kristmundsson
Ólafur Ólafsson ræðir við fjölmiðlafólk eftir að málinu var frestað.
Ólafur Ólafsson ræðir við fjölmiðlafólk eftir að málinu var frestað. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert