Rusl frá skyndibitastöðum áberandi

Unnið að hreinsun í Vogahverfinu.
Unnið að hreinsun í Vogahverfinu. Af Facebook síðu Græns apríl

Verkefnastjórar Græns apríl tíndu rusl á ferð sinni um borgina í gær en um helgina stendur yfir hreinsunarátakið einn svartur ruslapoki. Mikið rusl varð á vegi þeirra merkt skyndibitastöðum í Skeifunni.

„Það er sorglegt til þess að vita að fólk sé að henda út úr bílum sínum pappaglösum og öðrum umbúðum eftir að hafa neytt innihaldsins,“ að því er fram kemur á Facebooksíðu Græns apríl.

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka þátt í fegrun borgarinnar um helgina með því að tína rusl í nágrenni sínu í svarta ruslapoka. Starfsmenn borgarinnar munu sækja pokana á Degi jarðar, mánudaginn 22. apríl. 

„Átakið nefnist Einn svartur ruslapoki og er á vegum samtaka um Grænan apríl og munu nokkur önnur sveitafélög á landinu einnig  taka þátt. Hægt er að sækja sér svarta ruslapoka á Olísstöðvar en Olís gefur þá í tilefni hreinsunarátaksins. 

Allir þurfa að taka til hendinni eftir veturinn og leggur Reykjavíkurborg metnað sinn í að búa borgina vel undir sumarið. Í svörtu ruslapokana á að fara blandaður úrgangur en garðaúrgangur er aftur á móti flokkaður sérstaklega og fer hver og einn með hann á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Alþjóðlegur Dagur jarðar er haldinn mánudaginn 22. apríl og verða ruslapokarnir sóttir þann dag af starfsmönnum borgarinnar. Vonast er til að íbúar í hverfum og við hverja húsagötu taki saman höndum og tíni ruslið sem kemur í ljós eftir veturinn og velji tiltekna staði þar sem pokunum er safnað saman,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert