Olía lækkar á ný

Hægst hefur á hagvexti í Kína og dregið úr verksmiðjuframleiðslu.
Hægst hefur á hagvexti í Kína og dregið úr verksmiðjuframleiðslu. mbl.is/afp

Olía hefur lækkaði í verði í dag vegna nýrra hagtalna frá Kína sem eru á verri veg en búist var við. Talið er að draga kunni úr eftirspurn Kínverja eftir olíu en þeir eru orkufrekasta ríki veraldar og stærsti kaupandi olíu.

Fatið af Brent-olíu úr Norðursjó, sem haft er til viðmiðunar í olíuviðskiptum, hafði lækkað um 72 sent í 99,67 dollara um hádegisbil. Þar er um að ræða olíu sem kemur til afhendingar í júní. Viðmiðunarfat olíumarkaðarins í New York lækkaði á sama tíma um 57 sent í 88,62 dollara.

Það eru upplýsingar sem birtar voru í morgun um verksmiðju- og iðnaðarframleiðslu sem valda lækkuninni. Þær leiða í ljós, að framleiðsla hefur verið að dragast saman vegna þverrandi eftirspurnar eftir kínverskum vörum erlendis frá. „Þegar Kína hóstar fær umheimurinn kvef,“ sagði sérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu Sucden við AFP-fréttastofuna.

Svonefnd innkaupavísitala framleiðslufyrirtækja lækkaði úr 51,6 í mars í 50,5 í apríl. Umfram 50 endurspeglar hún vöxt en allt fyrir neðan þá tölu samdrátt. Lokagildi vísitölunnar verður birt 2. maí.

Í síðustu viku voru birtar hagtölur sem sýndu að 7,7% hagvöxtur hafi verið í Kína fyrstu þrjá mánuði ársins, en spár gerðu ráð fyrir 8% vexti. Á lokafjórðungi nýliðins árs var vöxturinn og meiri, eða 7,9%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert