Vetur og sumar frusu saman

Vorsólin reynir að losa um tök vetrarins á landinu en …
Vorsólin reynir að losa um tök vetrarins á landinu en víða er þó enn allt í klakaböndum og sumstaðar var hrollkalt í nótt. mbl.is/Rax

Vetur og sumar frusu saman um nánast allt land aðfaranótt sumardagsins fyrsta, en slíkt boðar góða tíð ef marka má þjóðtrúna. Mest fór frostið niður í -7,4°C á láglendi við Brú á Jökuldal og -12,9°C á hálendi í Veiðivatnahrauni.

Ekki ber þó alla saman um það hvort þjóðtrúin byggi á réttri túlkun, en hana má m.a. finna í eftirfarandi vísu eftir ókunnan höfund:

Frjósi sumars fyrstu nótt
fargi enginn á né kú.
Gróðakonum gerist rótt,
gott mun verða undir bú.

Páll Bergþórsson veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri benti á það í gær á Facebook síðu sinni, þar sem hann fjallar gjarnan um veðrið, að þetta megi túlka svo að þegar vor er kalt seinki gróðri, en hann haldist þá gjarnan grænn lengur á haustin og nýtist búfénu þar með betur. Kvíaærnar og kýrnar mjólki þá meira sem sé ákveðin huggun.

Ástsæl della?

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu að þótt alloft sé gott vit í gömlum veðurspádómum verði þessi að teljast fullkomin della. „Einföld athugun sem nær til síðustu 64 ára sýnir að vetur og sumar frusu saman á landinu 56 sinnum af þessum 64. Voru öll þau sumur góð?“ bendir Trausti á.

Margir hafa þó gaman af þjóðtrúnni sem lifir enn góðu lífi þrátt fyrir allar talningar. Í bók Árna Björnssonar þjóðháttarfræðings, Saga daganna, segir að  hvarvetna um landið verið fylgst með því hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta. „Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.“

Trausti tekur sjálfur fram að þrátt fyrir allt megi auðvitað hafa gaman af þessari þjóðtrú, „sem skemmtiatriði“. Hann segir að gaman væri ef uppruninn fyndist og sömuleiðis væri skemmtilegt að vita hvernig til þessarar reglu var vitnað fyrir 1950, eða þá á 18. eða 19. öld.

Dagurinn vel valinn af forfeðrunum þrátt fyrir allt

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að sumardagurinn fyrsti er aldrei fyrr í árinu en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Er hann því í síðasta lagi í ár. Á þessum tíma sé hlýnun á vori komin vel í gang og þótt oft sé svalt í veðri sé dagurinn vel valinn af forfeðrunum því tímabilið frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin er einmitt hlýrri helmingur ársins.

Þessa fyrstu sumardaga, frá 20. apríl eða svo og til 10. maí, er sá hluti ársins þegar norðaustanátt er hvað tíðust á landinu og loftþrýstingur hæstur, samkvæmt Veðurstofunni. Slíku veðri fylgir gjarnan þurr næðingur syðra, oft með sólskini, en dauft veður með smáéljahraglanda nyrðra. Mjög bregður þó út af í einstökum árum.

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta frá 1949 er 19,8 stig. Það var á Akureyri 22. apríl 1976. Lægsti hiti á sumardaginn fyrsta frá 1949 mældist aftur á móti á Barkarstöðum í Miðfirði árið 1988, eða -18,2°C. Aðeins sex sinnum hefur það gerst að hiti hafi hvergi á landinu farið niður fyrir frostmark aðfaranótt fyrsta sumardags og alltaf hefur landslágmarkið verið undir 1°C.

Í dag er samkvæmt Veðurstofu Íslands útlit fyrir norðan og norðvestan 5-13 og él norðan til. Stöku él SA-lands en annars þurrt að kalla og bjartvirði SV-til. Snýst smám saman í suðvestanátt á morgun og þykknar upp vestan til en léttir til fyrir norðan. Frost víðast hvar, en hiti 0-5 stig að deginum við suðvesturströndina.

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa …
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert