„Sumarið er kvíðvænlegur tími“

Ekki hafa allir foreldrar tök á að senda börn sín …
Ekki hafa allir foreldrar tök á að senda börn sín í sumarbúðir eða á sumarnámskeið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 100 fjölskyldur fá aðstoð frá Hjálparstofnun kirkjunnar árlega vegna kostnaðar við sumarnámskeið barna, sumarbúðir eða annað sem tengist sumarfríinu. Í flestum tilvikum er um að ræða atvinnuleitendur eða fólk í láglaunastörfum sem ekkert hefur aflögu til að gera börnum sínum dagamun á sumrin.

„Sumrin hafa verið mjög erfið öll þau ár sem ég hef starfað hjá Hjálparstarfinu. Það er erfitt fyrir foreldra að upplifa að geta aldrei leyft barninu sínu að vera þátttakandi í því sem önnur börn gera á sumrin,“ segir Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi sem hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstofnunar kirkjunnar. 

Sumarið kvíðvænlegur tími fyrir marga

„Við erum að aðstoða fólk sem er skilgreint undir fátækramörkum og fyrir marga er sumarið kvíðvænlegur tími, fólk í láglaunastörfum rétt eins og annað fólk þarf að huga að úrræðum fyrir börnin sín þann tíma sumars sem það er sjálft í vinnu. Allt kostar þetta, námskeiðakostnaður getur hlaupið á tugum þúsunda. Þetta er aukinn kostnaður fyrir fjölskyldur sem sumar hverjar þurfa að telja hverja krónu.“

Að sögn Vilborgar er afar misjafnt hvernig þessi aðstoð fer fram. Stundum fá fjölskyldur styrk til að greiða einstök námskeið eða sumarbúðadvalir, í öðrum tilvikum felst styrkurinn í því að kaupa línuskauta, hjól eða eitthvað áþekkt og stundum eru börn styrkt til farar á íþróttamót.  „Við viljum ekki kaupa sumarbúðadvöl fyrir öll börn og bjóða þeim saman í sumarbúðir, heldur hlustum við á hvert barn og hverja fjölskyldu. Þetta snýst um reynsluheim hvers barns. Við viljum styrkja félagslega þátttöku þeirra á þeirra forsendum.“

Geta ekki upplifað neitt saman

Vilborg segir algengt meðal þeirra fjölskyldna sem leita til Hjálparstarfsins vera í þeim sporum að hafa ekki tök á að upplifa neitt saman. Valið standi oft á milli þess að leyfa barninu að fara á námskeið eða sumarbúðir eða að fjölskyldan fari saman í ferðalag og oftast velji foreldrar það fyrrnefnda. „Flest hlökkum við til að gera eitthvað með börnunum okkar í sumar. En margt af þessu fólki er ekki í þeim sporum, það setur börnin sín í forgang þannig að þau geta þá a.m.k. upplifað eitthvað með vinum sínum, en fjölskyldan í heild er aldrei að upplifa neitt jákvætt og skemmtilegt saman.“

Sveitarfélögin styrkja þá sem eru á þeirra framfæri

Er engin aðstoð hins opinbera til fjölskyldna sem eru í þessum sporum? „Í gegnum tíðina hefur eitthvað verið um að sveitarfélögin hafi séð um að börn komist í sveit, en það hefur verið að breytast á undanförnum árum og fólk getur fengið styrk til annars, eins og t.d. sumarbúða og námskeiða. En það er bara fyrir þá sem eru á framfærslu félagsþjónustunnar í viðkomandi sveitarfélagi. Svo hefur Velferðarsjóður barna styrkt sveitarfélög á ýmsan hátt,“ segir Vilborg.

Velferðarsjóður barna styður starfið

Hjálparstarf kirkjunnar hefur t.d. gefið þeim sem á þurfa að halda árskort fyrir fjölskylduna í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og sundkort, en Vilborg segir að óskastaðan væri sú að geta veitt fjölskyldum aðstoð til að fara í sumarbústað eða styttri ferðalög um landið. „Margt láglaunafólk og þeir sem eru án atvinnu hafa t.d. ekki möguleika á því að fá lánuð sumarhús.“

Velferðarsjóður barna styður Hjálparstarf kirkjunnar fjárhagslega og Vilborg segir þann stuðning skipta sköpum. Á heimasíðu sjóðsins segir að hann hafi undanfarin ár varið umtalsverðri fjárhæð til sumargjafa til efnalítilla fjölskyldna, t.d.styrkti Velferðarsjóður barna um 110 börn til viku sumardvalar í fyrra samvinnu við KFUM og K og sumarbúðirnar Ævintýraland. 

Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstofnunar kirkjunnar.
Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstofnunar kirkjunnar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert