Þolmörkum náð á Grundartanga

Þolmörkum er náð á Grundartanga hvað varðar styrk brennisteinstvíoxíðs við jaðar þynningarsvæðisins, þetta er ein af meginniðurstöðum úttektar Faxaflóahafna á umhverfisáhrifum iðnaðarins við Grundartanga en úttektin var kynnt á blaðamannafundi í Hafnarhúsinu í morgun.

Í skýrslunni segir m.a. að skýrsluhöfundar kveiki á viðvörunarljósum varðandi flúor, þungmálma og svifryk og telja nauðsynlegt að fygljast með gangi mála. Þá eru frekari uppbyggingu settar ákveðnar skorður varðandi val á nýrri starfsemi á Grundartanga, einkum starfsemi sem losar brennisteinstvíoxíð.

Jafnframt er í skýrslunni lögð áhersla á að kröfur sem gerðar eru til iðnfyrirtækjanna á Grundartanga reynast við samanburð vera sambærilegar alþjóðlegum kröfum sem við eiga. Þá eru kröfurnar í tilteknum tilvikum jafnvel strangari samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum en kveðið er á um í tilsvarandi tilskipunum Evrópusambandsins.

„Ætlunin með þessari skýrslu er ekki að þagga niður gagnrýnisraddir,“ sagði Hjálmar Sveinsson, formaður Faxaflóahafna sf., á blaðamannafundinum í dag. Hann benti á að skýrslan ætti að hjálpa mönnum að ná saman og hætta að rífast um staðreyndir. Þá sagði Hjálmar nauðsynlegt að hafa úttekt af þessu tagi sem væri hafin yfir allan vafa og að hún gæti hjálpað við val á nýjum fyrirtækjum inn á svæðið. Auk þess sagði hann ekki hjá því komist fyrir Faxaflóahafnir að taka fullt mark á skýrslunni og niðurstöðum hennar.

 Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert