Brotsjórinn á við þriggja hæða hús

Guðni Páll er hér á æfingu utan við Grindavík, en …
Guðni Páll er hér á æfingu utan við Grindavík, en brimið sem sést hér er ekkert í samanburði við risaölduna sem skall á honum við Meðallandssand. Ljósmynd/Lífróður Samhjálpar

„Það er langur dagur fram undan, með þeim lengri. Þetta er búið að vera mjög erfitt undanfarna daga og mikið álag,“ segir róðrakappinn Guðni Páll Viktorsson sem lagði af stað frá Vík í Mýrdal til Vestmannaeyja á kajaknum í morgun, um 66 kílómetra leið.

Þar með lýkur þeim hluta leiðarinnar sem Guðni telur strembnastan, meðfram Suðurströndinni þar sem brimið getur verið ógnvænlegt pg jökulfljótin stóru hafa áhrif á strauma og sjóalag.

Risaalda líklega vegna neðansjávarsandrifs

„Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að ljúka þessu af fyrst. Er ekki illu best aflokið?“ sagði Guðni við blaðamann þegar hann var í þann mund að leggja í hann um tíuleytið í morgun.

Eins og fram hefur komið lenti Guðni í heljar brotsjó utan við Meðallandssand á miðvikudag. Kajakræðarar úr fylgdarliði Guðna Páls í landi lýsa því þannig að í risaaldan sem hvolfdist yfir hann hafi verið á hæð við þriggja hæða hús.

Aldan kýldi hann aftur á dekkið og hvolfdi bátnum með þeim afleiðingum að stýrið brotnaði í mél. Líklegt er að hún hafi myndast vegna neðansjávarsandrifs um 500-1000 metra frá landi, sem þekkt er að myndist á þessu svæði.

Nauðsynlegt að hafa gott fólk í landi

Ljóst er að Guðni Páll stóð þarna af sér mikla þrekraun en aðspurður um þessar dramatísku lýsingar bregst hann sjálfur við af hógværðinni einni saman, segir stífa þjálfun hafa komið sér vel og þakkar fylgdarliði sínu góða sögumennsku. 

„Þetta var stór alda, jú, jú, það er ekki laust við það. En ég er með mjög marga fylgdarmenn og mjög gott lið í landi. Þetta er algjörlega ómögulegt annað, það þarf að vera góður hópur sem fylgist með og tekur réttar ákvarðanir.“

Gísli H. Friðgeirsson, eini Íslendingurinn til þessa sem hefur róið á kajak umhverfis landið á kajak, hefur verið Guðna Páli innan handar á ferð hans meðfram Suðurströndinni. „Hann þekkir þetta svæði vel, er staðkunnugur og hefur reynst mér frábærlega.“

Kynnir leiðangurinn í Kaffi Kró

Útlit er fyrir hagstætt veður í dag og ef allt gengur eftir ætti Guðni því að ná til Vestmannaeyja með kvöldinu. Þar ætlar hann að taka sér smá hlé og safna kröftum enda er hann örlítið laskaður eftir átökin við náttúruöflin.

Hann ætlar þó ekki að sitja með hendur í skauti því á morgun býður hann Eyjamönnum og öðrum áhugasömum á Kaffi Kró þar sem verður kynning á leiðangrinum, sem farinn er til styrktar Samhjálp.

Lífróður Samhjálpar

Guðni Páll vonast til að ná að landi í Skansinum …
Guðni Páll vonast til að ná að landi í Skansinum í Eyjum í kvöld. mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka