„Mögulegt að velja hvort tveggja“

Norden.org

„Eins og sakir standa virðist innganga í Evrópusambandið ekki vera forgangsmál á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að halda í fullveldi eyríkisins eins og nafn hans gefur til kynna. Ef Ísland ákveður að hverfa frá viðræðum um inngöngu í sambandið verður landið alls ekki einangrað þrátt fyrir landfræðilega staðsetningu sína. Það er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og Fríverslunarsamtökum Evrópu og varð nýverið fyrsta Evrópuríkið til þess að undirrita fríverslunarsamning við Kína.“

Þetta segir Anna Sonny, starfandi verkefnastjóri Evrópumála hjá bresku hugveitunni Civitas, í pistli á heimasíðu hugveitunnar. Þar ræðir hún um nýafstaðnar þingkosningar hér á landi og bendir á að á sama tíma og möguleg innganga í Evrópusambandið hafi stuðlað að því að koma á eðlilegum samskiptum á milli Serbíu og Kosovo sé málum öðruvísi farið hinu megin í Evrópu. Íslendingar hafi kosið ríkisstjórn sem hafi efasemdir um inngöngu í Evrópusambandið og vilji standa vörð um sjálfstæði Íslands.

„Á sama tíma og spurningunni um sjálfstæði Bretlands frá Evrópusambandinu er gjarnan lýst sem pendúli sem sveiflist á milli þeirra að því er virðist ósamrýmanlegu valkosta að eiga í viðskiptum við sambandið og viðskiptum við afganginn af heiminum hefur Ísland sýnt fram á að það er mögulegt að velja hvort tveggja,“ segir hún.

Sonny segir kosningarnar hér á landi ennfremur áhugaverðar í ljósi þess hvernig kjósendur í Evrópu hafi varið atkvæðum sínum að undanfarin misseri. Óánægja á meðal almennings, og þá einkum vegna efnahagserfiðleikanna, geri það að verkum að eftirspurn sé á meðal kjósenda eftir skammtímalausnum sem réttlæti efnahagslegar fórnir þeirra. Pólitíska landslagið frá hægri til vinstri virðist þannig í dag snúast um það efnahagslega ástand sem til staðar er í viðkomandi landi.

Pistillinn á heimasíðu Civitas

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert