„Það er einfaldlega til vont fólk“

„Hún sendi mér mjög ljót skilaboð og skrifaði mér ljót …
„Hún sendi mér mjög ljót skilaboð og skrifaði mér ljót bréf,“ segir maðurinn. mbl.is/Rósa Braga

 „Mér finnst þetta ekki snúast um karla eða konur. Það er einfaldlega til vont fólk,“ segir ungur maður sem beittur var alvarlegu andlegu ofbeldi af kærustu sinni. Hún hótaði honum og kúgaði hann með margvíslegum hætti. Maðurinn segist enn frá martraðir, tveimur árum eftir að sambandinu lauk.

„Þetta var fyrsta kærastan mín. Ég átti frumkvæði að sambandinu og þess vegna kenndi ég alltaf sjálfum mér um að hafa ratað í þessar ógöngur.

„Mér fannst hún skemmtileg“

Hún kom mjög vel fyrir í fyrstu og sambandið fór vel af stað. Við vorum strax mjög mikið saman og mér fannst hún skemmtileg en dálítið feimin. Við töluðum mikið saman og náðum vel saman.

Þegar við vorum búin að vera saman í um þrjá mánuði fór hún að gagnrýna mig mjög hart ef henni fannst ég vera of lengi með vinum mínum. Hún sagði að ég væri vondur við hana og leiðinlegur.

Hún dvaldi um tíma erlendis og þá átti ég sífellt að vera tala við hana í gegnum Skype eða vera með henni á snarspjalli (msn-i) þegar ég var í háskólanum. Þetta gekk svo langt að ég náði ekki að fylgjast almennilega með í skólanum því hún var stöðugt að trufla mig.“

„Hótaði að fremja sjálfsmorð“

Hvernig gagnrýndi hún þig? Hvaða orð notaði hún?

„Hún sagði að ég væri feitur, vitlaus og að það myndi enginn annar vilja mig. Hún var stöðugt að minna mig á að hún væri svo góð við mig og að ég myndi aldrei finna neinn sem væri jafngóður við mig og hún. Hún notaði mjög ljót orð og var oft með niðurlægjandi athugasemdir um útlit mitt og það hvernig ég tjáði mig. Síðan komu alltaf þess á milli setningar eins og: „Fyrirgefðu, mér finnst þú svo fallegur og ég elska þig svo mikið.“

Inn á milli þess sem hún skammaði mig og gerði lítið úr mér var hún að gefa mér gjafir. Einu sinni gaf ég henni afmælisgjöf sem ég lagði alúð í að velja. Hún sagðist vera mjög ánægð með hana. Svo tók hún kast nokkrum dögum síðar og sagði þá að þetta væri versta gjöf sem hún hefði fengið og að ég hlustaði aldrei á hana.

Hún hótaði tvisvar að fremja sjálfsmorð vegna þess að ég væri svo vondur við hana. Svona hótanir höfðu mikil áhrif á mig, sérstaklega í ljósi þess að mamma hennar svipti sig lífi þegar hún var barn. Það fylgdi þessum hótunum að sjálfsvígið væri þá mér að kenna.“

„Ertu búinn að týna brosinu þínu?“

Slitnaði aldrei upp úr sambandinu fyrst sambúðin gekk svona illa?

„Jú, hún sleit oftar en einu sinni sambandinu og henti mér út, en alltaf kom ég aftur. Þess vegna fannst mér þetta ástand vera mér að kenna vegna þess að ég kom alltaf aftur. Þegar slitnaði upp úr sambandinu sendi hún mér mjög ljót skilaboð og skrifaði mér ljót bréf.“

Áttaði fjölskylda þín sig á að eitthvað var að?

„Jú, mamma og pabbi voru búin að átta sig á því. Áður en ég byrjaði í þessu sambandi brosti ég alltaf mikið, en einhverju sinni sagði mamma við mig: „Ertu búinn að týna brosinu þínu?“

Pabbi áttaði sig strax eftir að ég kynntist henni, að hún væri ekki góð manneskja. Hann varaði mig við henni. Ég hlustaði ekkert á hann og taldi að ég ætti að fá að velja sjálfur mína kærustu.“

„Ég vissi aldrei hvar ég hafði hana“

Einangraðist þú meðan þið voruð saman?

„Já, hún vildi stjórna tíma mínum mjög mikið. Meðan við bjuggum saman átti ég bara að vera heima og svo átti ég að vera heima þegar hún fór að hitta vini sína. Hún sagði að „ég mætti fara og hitta vini mína“, en þá kom hún líka alltaf með.

Við fórum einhverju sinni saman í afmæli og það gekk vel í fyrstu. Svo fór einhver stúlka í taugarnar á henni og þá yfirfærði hún það á mig og vildi að við færum heim. Hún gerði það gjarnan að ef það var einhver í vinnunni, í skólanum eða jafnvel í fjölskyldunni fór í taugarnar á henni þá yfirfærði hún það alltaf á mig. Þá var það mér að kenna ef henni var í nöp við einhvern. Ég vissi því aldrei hvar ég hafði hana.

Hún krafðist þess líka að ég kæmi beint heim úr skólanum eða strax heim úr vinnunni. Ég mátti ekki fara í vinnuna nema láta hana vita hvað ég ætlaði að vera lengi, sem var erfitt því að ég var í þannig vinnu. Undir lok sambandsins var ég farinn að þykjast þurfa að vera lengur í vinnunni til að ég þyrfti ekki að fara heim. Ég þurfti hins vegar alltaf að biðja hana um leyfi til að fá að vera lengur í vinnunni eða í skólanum.

Meðan ég bjó enn hjá foreldrum mínum átti ég alltaf að senda henni skilaboð áður en ég færi að sofa o.s.frv. Þessi fyrirmæli voru alltaf gefin á þeirri forsendu að ég væri búinn að vera svo vondur við hana, en hún svo góð við mig.“

„Var hættur að þora að sýna reiði“

Hvernig brástu við þessari kúgun sem þú lýsir? Varðstu reiður eða reyndir þú alltaf að þóknast henni?

„Ég gerði hvort tveggja. Stundum varð ég reiður, en þá varð þetta bara verra, svo ég var eiginlega hættur að þora að vera reiður.

Ég byrgði þetta allt inni og gat ekki fengið útrás fyrir þá reiði sem ólgaði inni í mér. Ég var einu sinni með vinum mínum og þá varð eitthvert smáatriði í samtali til þess að ég missti algerlega stjórn á mér. Það var ekkert sem þeir sögðu eða gerðu, en ég bara brotnaði allt í einu niður.

Hún hafði mikla þörf fyrir að stjórna öllu. Ég mátti t.d. ekki drekka gos og ég mátti ekki borða tilteknar matvörur. Ef ég sagði einhvern brandara vitlaust varð hún öskureið. Ef ég baðst ekki afsökunar á „mistökum mínum“ varð hún líka alveg brjáluð.“

Beitti hún þig líkamlegu ofbeldi?

„Nei, en hún gat verið mjög ógnandi.“

Hugsaði á hverjum morgni um að slíta sambandinu

Varstu ekkert farinn að velta fyrir þér að það væri kannski best að losna úr þessu sambandi?

„Jú, ég hugsaði um það á hverjum morgni þegar ég vaknaði.“

Hvers vegna fórstu ekki?

„Hún var búin að brjóta mig niður. Hún sagði stöðugt að það myndi enginn annar vilja mig og ég yrði bara einn það sem eftir er. Hún hótaði sjálfsvígi og sagði að það yrði mér að kenna. Það myndi brjóta hjarta pabba hennar ef hann missti dóttur sína með þessum hætti. Hún var líka alltaf að halda því fram að ég væri svo vondur við hana.

Ég hugsaði um að næst þegar hún sliti sambandinu þá færi ég ekki til baka. Þegar ég loksins stóð við það varð ég mjög ánægður með sjálfan mig.

Hefur þú einhvern tímann hitt karla sem hafa upplifað það sama og þú?

„Nei. Ég þorði lengi vel ekki að tala um þetta við neinn. Ég vissi ekki um neinn sem hafði orðið fyrir þessu.

Ég reyndi að fela þetta, en það var ekki auðvelt og ég reikna með að mínir nánustu hafi verið búnir að átta sig á að eitthvað mikið var að. En ég hélt líka að þetta ætti bara að vera svona og þetta væri bara aumingjaskapur í mér. Manni var kennt að svona nokkuð ætti ekki að henda karlmenn og þessi vandi snéri bara að konum.

Ég var einhverju sinni að tala við vinkonu mína sem sagði að heimilisofbeldi beindist bara gegn konum. Ofbeldi gegn körlum væri svo fátítt að það tæki því varla að tala um það. Mér finnst þetta ekki snúast um karla eða konur. Það er einfaldlega til vont fólk.“

„Vissi ekki hvert ég ætti að leita“

Veltir þú fyrir þér að leita þér hjálpar út úr þessum aðstæðum?

„Já, en ég vissi ekki hvert ég ætti að leita. Ég spurði pabba minn, sem er sálfræðingur, einhverju sinni hvert karlar sem væru beittir heimilisofbeldi gætu farið, en hann vissi ekki um neinn stað. Hann sendi mig hins vegar til sálfræðings.“

Hvernig endaði samband ykkar?

„Ég var að ljúka stóru verkefni sem ég hafði unnið að í langan tíma. Hún var eitthvað leið og ég reyndi að hressa hana við og sagði að mér hefði þótt maturinn sem hún eldaði mjög góður. Þá tók hún kast og sagði að ég væri ekki að meina neitt með þessum orðum. Hún fór og sagði að ég myndi aldrei sjá hana aftur. Hún breytti stöðu sinni á Fésbókinni á þann veg að hún væri ekki lengur í sambandi. Hún hafði reyndar gert það oft áður.

Þá fékk ég nóg og ákvað að hætta að hafa samband við hana. Hún sendi mér ljót sms-skilaboð og hringdi stöðugt. Ég þurfti á endanum að skipta um símanúmer. Hún krafðist þess að ég borgaði til baka frí sem faðir hennar hafði boðið okkur í. Hún sendi mér samt líka gjafir og vildi að ég kæmi aftur. Ég velti fyrir mér að fara aftur til hennar, en systir mín og frændi gripu í taumana og sögðu það ekki koma til greina. Að lokum áttaði hún sig á að mér væri alvara og hætti að hafa samband og flutti til útlanda.“

„Ég trúi því að henni hafi liðið mjög illa“

Ertu farinn að brosa aftur?

„Já, það er að koma aftur. Ég brosti mikið síðasta sumar. Þá var ég búinn að eignast nýja kærustu. Hún var góð við mig og mér leið þá vel í fyrsta skipti í mörg ár. Hún sleit hins vegar sambandinu.

Kannski var ein ástæðan fyrir sambandsslitunum að ég er ekki búinn að vinna úr því ofbeldi sem ég sætti í fyrra sambandi. Ég fæ enn martraðir á nóttunni. Martröðunum hefur að vísu fækkað, en þær eru samt enn til staðar.

Ég ber engan kala til hennar í dag. Ég trúi því að henni hafi liðið mjög illa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka