Aurskriða þeyttist yfir veginn

Verið er að ryðja veginn um Köldukinn, Norðurlandsveg nr. 85, en hann hefur verið lokaður í morgunn vegna aurskriðu. Vegagerðin segist vonast til að hann verði opnaður aftur um kl. 10:40. Umferð hefur hins vegar verið hleypt í gegn í lotum.

Gunnar Bóasson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, segir í samtali við mbl.is að um átta starfsmenn séu á vettvangi með gröfur og veghefla. „Við eigum eftir að moka mikið af drullu ennþá til að þetta verði almennilegt.“

Tilkynning barst rétt fyrir kl. 7 í morgun að skriða hafi fallið á veginn og kl. 7:30 voru starfsmenn Vegagerðarinnar mættir á staðinn. Mikil úrkoma var á svæðinu í gær og eitthvað fram eftir nóttu að sögn Gunnars.

Aðspurður segir hann að búið sé að hreinsa veginn að mestu. „Við erum að vinna í að opna vatnsrásirnar til að losna við vatnið,“ segir Gunnar.

„Þetta er hroðalega ljótt í landinu en vegurinn virðist ekki vera mikið skemmdur,“ segir Gunnar ennfremur, en ljótt sár hefur myndast í fjallshlíðinni þar sem skriðan féll. Hún hafi verið um 150 metra breið og um einn kílómetri á lengd.

„Þetta er töluvert mikið sem hefur þeyst hér yfir veginn og lengst hér niður á móana,“ segir Gunnar og bætir við að sem betur fer hafi enginn verið þarna á ferð þegar hamfarirnar dundu yfir.

Vegurinn hefur verið lokaður sitthvoru megin við svæðið þar sem skriðan féll og að sögn Gunnars hefur bílum verið hleypt í gegn í lotum. „Við verðum að vinna hérna í einhverja klukkutíma í viðbót. Við tökum niður hraðann hérna, en það er engin hætta þannig lagað séð eins og við sjáum núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert