Selja græn aflátsbréf til útlanda

mbl.is

Mynd af orkureikningi sem birtist á vefsíðunni www.flickmylife.com vakti nokkra athygli því 5% uppruna orku voru sögð vera frá kjarnorku.

Eftir lauslega könnun mbl.is kom í ljós að ekkert kjarnorkuver er á Íslandi, en samkvæmt svörum Orkuveitu Reykjavíkur eru ástæður þessa sala innlendra raforkuframleiðenda á grænum vottorðum á raforku til raforkuframleiðenda erlendis.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að þegar þessi grænu vottorð séu seld þurfi söluaðilinn að taka við orkusamsetningu heimalands kaupandans. Hann segir þetta algjörlega óháð því hver kaupir rafmagnið sjálft. Við framleiðslu rafmagns með grænum hætti verða til græn vottorð, eitt vottorð fyrir hverja megavattstund. „Þessi vottorð má selja hvert sem er í Evrópusambandinu,“ segir Eiríkur.

Kjarnorka 16% af rafmagni Íslendinga - en þó ekki

Orkustofnun heldur utan um þessar tölur, en í dag er hlutur kjarnorku í raforku á Íslandi 16% út frá þessum útreikningum. Ekkert rafmagn Orkuveitu Reykjavíkur er þó framleitt með kjarnorku. Á vef Orkustofnunar segir:

„Íslensk raforka er nánast öll framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum og því geta íslensku raforkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir raforku til fyrirtækja á evrópska efnahagssvæðinu. Á móti kemur að íslensku orkufyrirtækin þurfa að gera grein fyrir þessum viðskiptum með því að taka á sig í staðinn ígildi samsvarandi magns raforku sem ekki er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Íslenskir raforkukaupendur fá upplýsingar um upprunaábyrgðir með raforkureikningi sínum einu sinni á ári.“

„Þessi vottorð eru sprottin af Evrópusambandsákvörðun til að skapa aukna tekjumöguleika fyrir græna orkuframleiðendur. Þannig verður hagkvæmara fyrir fjárfesta að fara í græna orku en ef menn framleiddu það úr óendurnýjanlegum orkugjöfum, bara rafmagnið,“ segir Eiríkur.

Kaupendur grænna vottorða kaupa þessi vottorð af því þeir vilja vera grænir að sögn Eiríks. „Hollenskur háskólaprófessor sem kaupir raforku frá gasorkuveri vill vera með hreina samvisku og kaupir græn vottorð á móti því rafmagni sem hann kaupir,“ segir Eiríkur og tekur undir með blaðamanni að þessi vottorð séu nokkurs konar „umhverfisaflátsbréf“, þó án allrar vafasamrar tengingar við aflátsbréfasölu kaþólsku kirkjunnar. 

„Það er ekkert fjarri lagi,“ segir Eiríkur. „Markmiðið er þó að gera það hagkvæmara að framleiða raforku með vindorku eða slíku frekar en með kolum og gasi og olíu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert