Styðja ekki tillöguna

Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, lögðust ekki gegn því á fundi borgarstjórnar í dag að nýtt aðalskipulag Reykjavíkur væri sett í auglýsingu, en þeir studdu ekki tillöguna.

Aðalskipulagið gildir til ársins 2030. Ákvörðun borgarstjórnar í dag þýðir að nú verður aðalskipulagið auglýst og gefst borgarbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma með athugasemdir innan auglýsts frests.

Í sameiginlegri bókun þeirra Júlíusar og Kjartans kemur fram, að ýmsir veigamiklir kaflar aðalskipulagsins séu ítarlegir og vandaðir. Tekið sé undir þakkir til starfsmanna borgarinnar sem unnu að gerð þess á Umhverfis- og skipulagssviði og öðrum sviðum borgarinnar. Aðalskipulag sé þó fyrst og fremst pólitísk stefna sem nái til flestra þátta borgarsamfélagsins.

„Ekki er hægt að fallast á þá einhæfni sem einkennir uppbyggingu íbúðarbyggðar fram til ársins 2030 eins og hún er sett fram í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur. Höfuðborg landsins verður að bjóða upp á fjölbreytta valkosti fyrir ungar barnafjölskyldur jafnt sem eldri borgara en skipulagið tekur ekki mið af því. Þétting byggðar hefur verið stór þáttur í uppbyggingu og endurnýjun borgarinnar frá miðri síðustu öld. Stefnan í aðalskipulaginu um þéttingu byggðar er þó færð út í öfgar sem sést til dæmis á því að góð úthverfi borgarinnar, þar sem meira en helmingur borgarbúa býr, eru í texta skipulagsins ítrekað kölluð áratugalöng „gegndarlaus útþensla“.

Aðalskipulagið ætti að svara þeirri óheillavænlegu þróun að ungar fjölskyldur kjósa frekar að hefja sinn búskap í öðrum sveitarfélögum en í Reykjavík. Það er hins vegar ekki gert og líklegt að verið sé að ýta undir þá þróun frekar en að snúa henni við,“ segir í bókuninni.

„Þörf fyrir land fyrir íbúðarbyggð vestan Snorrabrautar á skipulagstímanum er ofmetin. Verði flugvöllurinn látinn víkja eftir þrjú ár eins og aðalskipulagið hljóðar á um mun starfsemi hans leggjast af og fjöldi starfa glatast án þess að uppbygging á landinu hefjist í framhaldinu.

Við leggjumst ekki gegn því að aðalskipulagið sé sett í auglýsingu en styðjum ekki tillöguna,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert