Landeigendur loka Leirhnjúkssvæði og Víti

Svæðinu við Leirhnjúk í Mývatnssveit, norðvestur af Kröflu, verður lokað alfarið fyrir ferðamönnum frá og með morgundeginum 17. júní um óákveðinn tíma. Til þessa ráðs er gripið til að verja landið frekari spjöllum, að sögn landeigenda. Áberandi skilti um lokun verða sett upp svo ekkert fari á milli mála.

Stjórn Landeigenda Reykjahlíðar ehf. tók ákvörðun um lokunina, en að þeirra sögn hafa þegar orðið mikil spjöll á landinu vegna ágangs. Á þessum tíma er landið viðkvæmt og göngustígar og göngupallar eru afar illa farnir eftir vetraráhlaup og snjóþyngsli. Þá er lokunin einnig sögð í þágu öryggis ferðafólks.

Allt að 2,5 milljóna króna tjón

„Gönguleiðir  í kringum Víti eru sömuleiðis stórhættulegar ferðafólki og óhjákvæmilegt að loka svæðinu af öryggisástæðum,“ segir Ólafur H. Jónsson, formaður stjórnar Landeigenda Reykjahlíðar, í yfirlýsingu.

„Þarna hefur þegar orðið mikið tjón og ætla má að það muni kosta allt að 2,5 milljónum króna að bæta þar úr svo stígar og pallar komist í samt lag á ný. Mikil óvissa ríkir um hverjir treysta sér til eða telja sig eiga að borga endurbæturnar og tryggja þannig öryggi ferðamanna. Hér er því nærtækt dæmi nauðsyn þess að afla nauðsynlegra tekna, með því að gestir greiði fyrir að skoða náttúruperlurnar, til að gera svæðið þannig að það standist kröfur um landvernd og öryggi. Því miður er lokun eina leiðin í stöðunni.“

Ætla að innheimta náttúruverndargjald 2014

Næstu daga verður svæðið við hveri austan Námafjalls tekið út og ákveðið í framhaldinu hvort loka eigi þar líka í þágu öryggis ferðamanna.

Ólafur segir að hér sé úr vöndu að ráða. „Enn og aftur kalla landeigendur eftir tillögum aðila í ferðaþjónustu, stjórnvalda og umhverfissamtaka um hvað sé til ráða til frambúðar. Náttúran líður fyrir óbreytt ástand og ekki hætta ferðamenn að heimsækja Mývatnssveit í náinni framtíð.“

Horfa verði á allar hliðar stóraukins ferðamannastraums til Íslands og gera tilheyrandi ráðstafanir svo landið þoli áganginn. „Landeigendur Reykjahlíðar stefna að því að byrja að innheimta náttúruverndargjald af ferðamönnum á árinu 2014. Það er eina leiðin út úr þessum vanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert