Skammarlegt klúður

mbl.is/Eggert

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að það væri skammarlegt að Alþingi hefði sent þrjá karlmenn á sumarþing Evrópuráðsins sem sé brot á reglum um kynjakvóta. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng.

„Við leyfum því skammarlega að gerast aftur og aftur að á annað kynið hallar í þingnefndum. Af hverju voru kynjahlutföll í alþjóðanefndnum ekki lagfærð og leiðrétt um leið og kynjahlutföll í öðrum nefndum var leiðrétt,“ spurði Oddný í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

„Alþingi Íslendinga sendi þrjá karla á sumarþing Evrópuráðsins og það er klárt brot á reglum um kynjakvóta,“ sagði hún og bætti við að á þetta væri litið alvarlegum augum.

Á ábyrgð þingsins en ekki ríkisstjórnarinnar

„Það er okkur þingmönnum til vansa að hafa sent sendinefnd í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins þar sem eingöngu voru karlmenn. Það hefur líka komið fram á þingflokksformannafundum að þessu verði breytt fyrir næsta fund,“ sagði Ragnheiður sem lagði áherslu á að þetta hefði verið á ábyrgð þingsins en ekki ríkisstjórnarinnar.'

Oddný benti á, að á morgun verði úrskurðað um það hvort íslenska sendinefndin „verði send heim með skottið á milli lappanna vegna brota á reglum ráðsins.“

„Tökum nú höndum saman og finnum leiðir til að koma í veg fyrir svona klúður. Stjórnarflokkarnir hafa afl til að skipa bæði karl og konu í þingnefndir og þeir ættu að hafa með sér samráð um kynjaskiptingu í alþjóðanefndum með færri fulltrúum. Getum við ekki fundið sameiginlega einhverja slíka ferla til að koma í veg fyrir að við verðum okkur til skammar,“ sagði Oddný ennfremur.

Sjö konur og einn karl hjá Jafnréttisstofu

Ragnheiður sagði að þingflokksformenn allra flokka á Alþingi verði að „sýna á spilin“ áður en skipað sé endanlega í nefndir „til þess að við getum jafnt í nefndum innan þings sem fastanefndum á alþjóðavettvangi komið í veg fyrir að annað tveggja séu eingöngu konur og hins vegar eingöngu karlar.“

Þá sagði hún það vera umhugsunarefni að sjö konur og einn karlmaður starfi á Jafnréttisstofu. „Það getur heldur ekki verið hið eina rétta. Og ef okkur er annt um að jafnrétti sé víða og jafnt í stjórnum, ráðum og nefndum, þá held ég að þar þurfi líka að taka til hendinni í þeirri stofu sem heldur utan um að við hin fylgjum jafnréttislögum.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert