Flöt lækkun lána ekki ráðleg

mbl.is/Rósa Braga

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) telur þá flötu lækkun lána sem boðuð hefur verið ekki ráðlega og tekur undir þá gagnrýni Seðlabankans að slík lækkun myndi að mestu nýtast þeim sem ekki ættu í erfiðleikum með afborganir. Stofnunin sagði það mun árangursríkara að takmarka lækkanir við þau heimili sem ættu erfitt með að standa í skilum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu nú í morgun þar sem kynnt var ný skýrsla stofnunarinnar um efnahagsmál á Íslandi, en slíkar skýrslur eru gefnar út á tveggja ára fresti.

Stofnunin telur heldur ekki ráðlegt að gera afborganir af húsnæðislánum frádráttarbærar frá skatti. Benti David Carey, hagfræðingur OECD á slæma reynslu landa á borð við Holland af slíku fyrirkomulagi og sagði mörg þeirra landa sem stuðst hefðu við slíkt kerfi hafa afnumið það. Hann nefndi til dæmis að fyrirkomulagið í Hollandi skerti tekjuskattstofn ríkisins um þriðjung og hvetti til þess að heimilin greiddu síður niður lán sín og fjárfestu þess í stað, sem leiddi til aukinnar áhættu fyrir heimilin í landinu.

Þess í stað lagði stofnunin til húsnæðistengd fjárframlög ríkisins til þeirra sem ættu erfitt með að standa undir húsnæðiskostnaði og greina þannig ekki á milli þeirra sem keyptu eða leigðu húsnæði.

Helstu niðurstöður skýrslunnar má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert