Guðni Páll kennir lasleika

Kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson.
Kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson. kayakklubburinn.is

Guðni Páll Viktorsson kajakræðari er kominn í Haganesvík í Fljótum en hann átti í gær  erfiðan róður frá Lónkoti í Skagafirði í allt að tveggja metra ölduhæð á hlið og miklu frákasti frá ströndinni. Þá hefur Guðni Páll átt við lasleika að stríða undanfarna daga.

Alls réru Guðni Páll og róðrafélaginn Þóra Atladóttir 21 km í gær. Ætlunin var upphaflega að róa 44 km til Siglufjarðar en þau plön breyttust vegna erfiðra aðstæðna. Í dag verður staðan skoðuð með veður og sjólag frá Haganesvík og til Siglufjarðar.

Á laugardag leitaði Guðni Páll til læknis á Hofsósi þar sem hann fann fyrir slappleika. Var hann greindur með sýkingu á byrjunarstigi og fékk lyf til að vinna á henni.  Á vefsíðu Kayakklúbbsins segir að Guðni Páll sé enn ekki búinn að ná sér að fullu og sæki þreyta að honum.

Guðni Páll hefur nú lagt að baki 1.444 km af leið sinni um Ísland. Verði engir aukakrókar eru eftir 614 km til Hafnar í Hornafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka