Mistök sem kostað hafa marga milljarða

Skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð kynnt.
Skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð kynnt. mbl.is/Golli

Rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð leiddi í ljós margvísleg mistök er vörðuðu sjóðinn samkvæmt skýrslu nefndarinnar sem kynnt var á blaðamannafundi í dag. Sum mjög alvarleg sem haft hafi í för með sér kostnað fyrir þjóðina upp á milljarða króna sem ekki sjái fyrir endann á. Heildartap Íbúðalánasjóðs frá stofnun hans er að mati rannsóknarnefndarinnar 270 milljarðar króna.

Fram kemur að þessi mistök megi meðal annars rekja til vanþekkingar innan Íbúðalánasjóðs og hjá þeim sem tengdust honum. Hins vegar sinnuleysis stofnana stjórnsýslunnar. Pólitísk áhrif og hagsmunatengsl hafi síðan ekki bætt úr skák. Ennfremur segir að stjórnsýsluleg staða Íbúðalánasjóðs hafi verið illa skilgreind og í raun óviðeigandi miðað við að um sé að ræða áhrifamikið stjórntæki á sviði húsnæðismála.

Starfshættir stjórnar sjóðsins hafi einkennst af illa skilgreindu hlutverki og of víðu verksviði sem og af ónógri þekkingu starfsmanna hans á starfsemi hans sem lánastofnunar. Það hafi ekki síst mátt reka til þess að Íbúðalánasjóður var rekinn sem félagsmálastofnun frekar en fjármálastofnun en að mati nefndarinnar hafi sjóðurinn verið fyrst og fremst fjármálastofnun. Þá hafi pólitískar ráðningar í stöður framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjóra Seðlabanka Íslands rýrt trúverðugleika sjóðsins og virkni eftirlits þessara stofnana með starfsemi hans.

Skuldabréfaskiptin mestu mistök Íbúðalánasjóðs

Stjórn Íbúðarlánasjóðs sinnti ekki eftirlitshlutverki sínu sem skyldi að mati rannsóknarnefndarinnar þrátt fyrir ábendingar frá Fjármálaeftirlitinu um að nýta innri endurskoðun. Stefnumótun stjórnar sjóðsins hafi verið í lágmarki en sú vinna hafi farið fram í ráðuneytinu í náinni samvinnu við æðstu stjórnendur hans og sérfræðinga.

Skuldabréfaskiptin, sem áttu sér stað í kjölfar þess að horfið var frá húsbréfakerfinu 2004 og tekið upp bein peningalán, voru ein verstu og afdrifaríkustu mistök sem Íbúðalánasjóður hefur gert að mati nefndarinnar ef ekki þau allra verstu. Tap sjóðsins vegna þeirra hafi að lágmarki verið 21 milljarður króna en þar fyrir utan hafi reiknivilla sem gerð var í skiptunum kostað 3,5 milljarða. Þá hafi hækkun veðhlutfalls almennra lána Íbúðalánasjóðs úr 65% í 90% endað illa og orðið þjóðinni dýrkeypt. 

Orðrétt segir í skýrslunni: „Árið 2004 ákváðu stjórnvöld að fara vissa vegferð með Íbúðalánasjóð. Hún fólst í breyttum útlánum og fjármögnun þeirra. Í fyrsta lagi var húsbréfakerfið lagt niður og íbúðabréfakerfið tekið upp með beinum peningalánum. Í öðru lagi var hámarkslánsfjárhæð hækkuð mikið og veðhlutfall almennra lána sjóðsins hækkað úr 65% í 90%. Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“

Heildartap Íbúðalánasjóðs 270 milljarðar króna

Heildartap Íbúðalánasjóðs frá stofnun hans er að mati rannsóknarnefndarinnar 270 milljarðar króna. Þar af séu 86 milljarðar vegna útlána og fullnustueigna, 28 milljarðar vegna lausafjárstýringar, 54 milljarðarvegna uppgreiðsla og 103 milljarðar vegna uppgreiðsluáhættu. Stærsti einstaki liðurinn í tapi sjóðsins er vegna kaupa á lánshæfistengdum skuldabréfum á árunum 2007 og 2008, alls 14 milljarðar króna.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í rannsóknarskýrslunni sem kynnt var á blaðamannafundi sem hófst klukkan 14:00 en skýrslan var afhent Kristjáni L. Möller, 1. varaforseta Alþingis, formlega fyrr í dag. Rannsóknarnefndin var skipuð haustið 2011 á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi en verkefni hennar var einkum að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda þeirra breytingar sem gerðar voru á fjármögnun og lánareglum hans á árinu 2004 og til ársloka 2010. Fram kemur í þingsályktuninni að í kjölfar rannsóknarinnar skuli fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi.

Formaður rannsóknarnefndarinnar er Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari, og með honum í nefndinni eru Kirstín Flygenring, hagfræðingur, og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri. Fram kom á blaðamannafundinum að störf nefndarinnar hafi upphaflega átt að taka sex mánuði en hafi að lokum tekið 22 mánuði þar sem umfang rannsóknarinnar hafi reynst mun meira en gert hafi verið ráð fyrir. Margt hafi orðið á vegi rannsóknarnefndarinnar sem hún hafi talið alvarlegt, ástæðu til að rannsaka og gera opinbert.

Skýrsluna í heild má lesa á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar

Skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð kynnt.
Skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð kynnt. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert