Fingraför Framsóknar víða

„Breytingaferlið frá Húsnæðisstofnun yfir í hinn nýja Íbúðalánasjóð ber augljós merki þess að Framsóknarflokkurinn og félagar í þeim flokki komu þar mjög við sögu. Tengsl húsnæðismála við ákveðinn stjórnmálaflokk höfðu raunar vart verið jafn áberandi allt frá sjöunda áratugnum, þegar Alþýðuflokkurinn hafði haft sterka stöðu um mótun og framkvæmd húsnæðisstefnu landsmanna ...“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð sem gerð var opinber í gær þar sem fjallað er um pólitísk afskipti af sjóðnum meðal annars þegar kom að ráðningarmálum. Í kaflanum er farið með ítarlegum hætti yfir sögu pólitískra afskipta af húsnæðismálum á Íslandi allt frá því í byrjun síðustu aldar. Lengst af hafi ráðherrar málaflokksins komið úr röðum vinstri flokkanna, einkum Alþýðuflokksins. Undantekningarnar frá því séu þau tímabil þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi starfað saman í tveggja flokka stjórnum en þá hefur hann allajafna verið í höndum framsóknarmanna.

Löng seta ráðherra úr sama flokki óheppileg

„Ætla má einnig að löng seta ráðherra úr sama flokki sem æðsti ábyrgðaraðili húsnæðismála auki nokkuð hættuna á sterkum pólitískum venslum innan stjórnsýslunnar. Lengstu tímabil einstakra flokka við stjórnvöl félagsmálaráðuneytisins voru annars vegar tímabil Alþýðuflokksins í Viðreisnarstjórninni 1959–1971 og síðan tímabil samstjórna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árin 1995–2007. Átta af þessum 12 árum, árin 1995–2003, gegndi Páll Pétursson embætti félagsmálaráðherra. Arftaki hans, Árni Magnússon, sat síðan í embætti til mars 2006 og lokaár Framsóknarflokksins í félagsmálaráðuneytinu bættust við sem ráðherrar þeir Jón Kristjánsson og Magnús Stefánsson,“ segir í skýrslunni.

Fjallað er um ráðningu Guðmundar Bjarnasonar sem fyrsta framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs en hann var þá ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hann tók hins vegar ekki við stöðunni fyrr en hann lét af ráðherradómi eftir þingkosningarnar 1999. Fram kemur að umsækjendur um stöðuna hafi verið 17 en Guðmundur hafi verið talinn hæfastur af sérstakri undirbúningsnefnd að stofnun Íbúðalánasjóðs. Vísað er í frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma í því sambandi þar sem rætt var við Gunnar S. Björnsson annan fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni en hann var formaður stjórnar Íbúðalánasjóðs og gegndi stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins þar til Guðmundur tók við henni.

Gerðar athugasemdir við ráðningu framkvæmdastjóra

„Ekki verður litið fram hjá þeirri staðreynd að við ráðningu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs varð næstvaldamesti forystumaður Framsóknarflokksins fyrir valinu: Guðmundur Bjarnason, þáverandi varaformaður flokksins og ráðherra. Þegar ráðningin er skoðuð er óhjákvæmilegt að líta til þeirrar menntunar og reynslu sem Guðmundur hafði þegar hann sótti um stöðuna. Á vef Alþingis kemur fram að Guðmundur hefur samvinnuskólapróf frá Bifröst, eða það sem einnig er kallað verslunarpróf, sem jafngildir tveggja ára námi í framhaldsskóla,“ segir ennfremur í skýrslunni. Starfsreynsla hans hafi einkum samanstaðið af þingmennsku og ráðherradómi 1979‒1999.

Fram kemur að að í ljósi stjórnunarhátta og augljósra pólitískra tengsla megi segja að ráðning Guðmundar Bjarnasonar í starf framkvæmdastjóra hafi átt lítið skylt við faglega ráðningu. „Þessi ákvörðun undirbúningsnefndar, þar sem hver og einn nefndarmaður átti framtíðarskipun í stjórn Íbúðalánasjóðs undir ráðherra, stenst ekki þá kröfu um trúverðugleika sem gera verður til ráðninga í æðstu stöður og embætti hins opinbera. Ráðning af þessu tagi flokkast undir pólitíska ráðningu vegna þess að hún ber öll merki þess.“

Efast um faglega ráðningu fleiri starfsmanna

Einnig er rætt um ráðningu Halls Magnússonar, fyrrverandi sviðsstjóra hjá Íbúðalánasjóði, til sjóðsins og að sama skapi lýst efasemdum um það hvernig hún kom til. „Einnig vekur athygli að Hallur Magnússon, sem á þeim tíma hafði lengi verið starfandi í Framsóknarflokknum, var ráðinn til stofnunarinnar, fyrst sem yfirmaður gæða- og markaðsmála en síðar sem yfirmaður þróunar- og almannatengslasviðs og að lokum sem sviðsstjóri þróunarsviðs. Ekki fæst séð að umrædd staða hafi verið auglýst er Hallur var fyrst ráðinn árið 1999,“ segir þannig í skýrslunni og á öðru stað: „Hallur átti sér sömuleiðis forsögu innan Framsóknarflokksins og hafði m.a. starfað sem blaðamaður á málgagni flokksins, Tímanum.“

Þá er í skýrslunni bent á ráðningu Jóhanns G. Jóhannssonar í þessu sambandi. „Svipuð staða virðist hafa verið uppi við fyrirkomulag á ráðningu Jóhanns G. Jóhannssonar. Þótt Jóhann hafi ekki haft sömu tengsl við Framsóknarflokkinn og þeir tveir einstaklingar sem getið er hér á undan, var hann ráðinn inn sem verktaki en ekki launamaður í byrjun. Ráðning hans var ekki að undangenginni auglýsingu eftir því sem næst verður komist,“ segir ennfremur í skýrslunni. Bent er á að fundið hafi verið að ráðningu Jóhanns í skýrslu innri endurskoðunar árið 2005.

Eins og mbl.is hefur fjallað um tilkynnti Hallur í gær að hann ætlaði að höfða meiðyrðamál gegn rannsóknarnefndinni þar sem því sé haldið fram í skýrslu nefndarinnar að ráðning hans til Íbúðalánasjóðs hafi verið pólitísk og gefið í skyn að staðan hafi ekki verið auglýst.

Koma niður á trúverðugleika og eftirliti

Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar að pólitískar ráðningar séu ein skýringin á því að eftirlit með Íbúðalánasjóði var ekki fullnægjandi þegar umfangsmestu breytingarnar á lánastarfsemi sjóðsins voru gerðar árið 2004 þegar húsbréfakerfið var lagt niður og í stað þess tekin upp bein peningalán. Fram kemur að „pólitískar ráðningar, að því er séð verður, í stöður framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, forstjóra Fjármálaeftirlits og bankastjóra Seðlabanka Íslands“ hafi rýrt trúverðugleika og þessara stofnana og virkni eftirlits þeirra með starfsemi sjóðsins.

Nefndarmenn lögðu hins vegar áherslu á það á blaðamannafundi sem fram fór í gær vegna útkomu skýrslunnar að pólitískar ráðningar þýddu ekki sjálfkrafa að þeir sem ráðnir væru með þeim hætti væru vanhæfir til að gegna umræddum störfum en það kæmi sér hins vegar illa þegar trúverðugleiki væri annars vegar og þá einkum og sér í lagi í tilfelli eftirlitsstofnana.

Skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð kynnt.
Skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð kynnt. mbl.is/Golli
Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra.
Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra.
Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert