Samkomulag um þinglok í uppnámi

Jón Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Jón Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Óvíst er hvort þinglok verða í dag eins og samkomulag náðist um milli flokka á Alþingi fyrr í vikunni. Forseti Alþingis fundar með þingflokksformönnum í hádeginu en stjórnarandstaðan sakar meirihlutann um svik vegna breytingatillögu meirihluta atvinnuveganefndar á frumvarpi um veiðigjöld.

Meirihluti atvinnuveganefndar lagði til á milli 2. og 3. umræðu að kolmunnaafli verði undanþeginn sérstöku veiðigjaldi. Það þýðir að áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs af veiðigjöldunum munu jafnframt lækka um 459 milljónir króna.

Stjórnarandstöðuþingmenn voru ævareiðir yfir þessari breytingatillögu og sögðu hana stangast á við samkomulag sem gert var um þinglok. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, var jafnframt sakaður um að hafa varpað sprengju inn í þingið á síðasta degi sumarþings.

Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkana komu allir upp í pontu og kröfðust þess að þingfundi yrði frestað svo hægt væri að taka upp samkomulagið. Ræða þurfi um breytingatillöguna sem hafi í för með sér mikla tilfærslu á fjármunum. Samið hafi verið um ákveðinn ræðutíma í 3. umræðu um frumvarpið en hann standist ekki þegar komið sé með breytingatillögu á borð við þessa.

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, benti meðal annars á að aðgerðir hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fælu í sér sparnað upp á 127 milljónir króna. En hægt væri að koma með breytingatillögu um 460 milljóna króna afslátt til útgerðarmanna og reynt að læða henni í gegn á lokametrunum. 

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði þetta algjörlega ólíðandi og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þetta hrein svik. „Hvað mig varðar er ekkert samkomulag í gildi,“ sagði hún.

Jón Gunnarsson tók þátt í umræðunni og sagði ekki um neina sprengju að ræða. Þannig væri að það bæri sig ekki fyrir útgerðir að sækja kolmunna ef sett væri á hann veiðigjald og því væri eðlilegt að leggja ekki slíka álagningu á hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert