Aldrei fleiri beðið eftir aðgerðinni

Aldrei hafa fleiri sjúklingar beðið lengur en þrjá mánuði eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatökum á Íslandi. Eru þá kransæðavíkkanir meðtaldar. Nú bíða 76 eftir slíkum aðgerðum en voru 60 færri á sama tíma í fyrra og aðeins 3 biðu í júní árið 2011. Þá hafa sjaldan fleiri konur beðið yfir þrjá mánuði eftir legnámsaðgerð.

Þetta kemur fram í samantekt Embættis landlæknis á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum í júní.

Fjöldi einstaklinga sem beðið hafa þrjá mánuði eða lengur eftir aðgerð er áfram áberandi mestur fyrir skurðaðgerð á augasteini. Einnig fjölgar einstaklingum sem beðið hafa lengi eftir gerviliðaaðgerðum. Konum sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð vegna legsigs heldur hins vegar áfram að fækka.

Áætlaður biðtími einnig lengst

Almennt virðast hafa verið árstíðabundnar sveiflur á fjölda einstaklinga á biðlista eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatöku og flestir verið á biðlista í október. Nú virðist hins vegar sem breyting sé á og einstaklingum hefur haldið áfram að fjölga á listanum, segir í frétt á vef landlæknis. Áætlaður biðtími hefur einnig lengst, er nú 6 vikur en var 5,2 vikur í febrúar  og einungis 2,6 vikur á sama tíma fyrir ári. Alls voru 1.640 aðgerðir framkvæmdar á árinu 2012, sem er rúmlega 8% fækkun aðgerða frá fyrra ári og tæplega 9% fækkun frá árinu 2010 (1.795).

Alls höfðu 36,5% einstaklingar á bið- og vinnulista beðið í þrjá mánuði eða lengur. Hafa ber í huga að einstaklingar sem þurfa bráðameðferð fara ekki á biðlistann. Aðgerðum fækkaði um tæplega 9% á árunum 2010–2012.

Heildaryfirlit yfir stöðu á biðlistum síðustu ára til og með júní 2013, ásamt greinargerð, er að finna á síðunni Biðlistar - tölur á vefsetri embættisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert