„Erum að skoða allar leiðir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og José Manuel Barroso.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og José Manuel Barroso.

„Framkvæmdastjórn ESB er að skoða allar hugsanlegar leiðir til að finna lausnir og tryggja stöðu makrílsstofnsins,“ sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á blaðamannafundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í Brussel í dag.

Sigmundur Davíð var spurður út í yfirlýsingar Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, um makrílveiðar Íslendinga, en hún sagði í gær að ESB gæti ekki beðið til næsta árs með að bregðast við veiðum Íslendinga. Það yrði að grípa til aðgerða núna.

Bauðst til að aðstoða ESB að stýra fiskveiðum

„Ég tel ólíklegt að ESB hrindi slíkum refsiaðgerðum í framkvæmd, ekki síst refsiaðgerðum sem eru ekki í samræmi við reglur WTO og EES-samningsins. Íslensk stjórnvöld eru tilbúin að finna lausn á deilunni,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Ég tel að Ísland geti að mörgu leyti verið fyrirmynd hvað varðar stjórn fiskveiða. Við höfum byggt stefnu okkar á sjálfbærum fiskveiðum í marga áratugi. Árangur stefnu okkar er sýnilegur. Það getur verið erfitt fyrir ríkisstjórnir á Íslandi að standa við markaða stefnu. Það er pólitískur þrýstingur, bæði utanlands og innanlands, en allar ríkisstjórnir á Íslandi hafa staðið vörð um sjálfbærar veiðar. Nú sjáum við árangur þessarar stefnu. Við erum tilbúin að aðstoða Evrópusambandið til að ná sambærilegum árangri við stjórnun fiskistofna sambandsins. Ef sambandið tekst að stjórna veiðunum með sambærilegum hætti og Ísland hefur gert þá myndi það auka afrakstur fiskveiðanna gríðarlega og miklu meira en það sem við erum að takast á um í sambandi við makrílveiðar.“

Makríllinn er í hættu

Barroso sagði í framhaldi af svari Sigmundar Davíðs að nauðsynlegt væri að að tala skýrt um þetta mál, enda væri málið viðkvæmt. „Makrílveiðar eru málefni sem er mikilvægt fyrir öll strandríki, líka aðildarríki ESB. Það er mikilvægt að tryggja sjálfbærni makrílveiða, en við teljum að stofninn sé núna í hættu. Framkvæmdastjórn ESB er að skoða allar hugsanlegar leiðir til að finna lausnir og tryggja stöðu stofnsins. Við viljum ná samningum og því getum við ekki sætt okkur við einhliða ákvarðanir sem samningsaðilar okkar taka.

Eins og ykkur er kunnugt voru umræður um þetta mál í framkvæmdastjórninni í gær og á fundinum lýstu nokkrar aðildarþjóðir yfir miklum áhyggjum. Við erum núna að ræða framhald málsins, en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Við erum áfram tilbúnir að semja um lausn málsins og þess vegna skora ég á Ísland og aðra samningsaðila að leggja sig fram um að finna lausn,“ sagði Barroso.

Sigmundur Davíð ítrekaði samningsvilja Íslands. „Við höfum lýst okkur tilbúna til að lækka hlutdeild okkar tvö ár í röð í samræmi við tillögur vísindamanna, þ.e. 15% á síðasta ári. Við erum tilbúnir að finna lausn sem öll strandveiðilöndin geta fellt sig við. Ef við horfum til vísindanna og látum þau leiða okkur áfram er ég sannfærður um að við finnum lausn sem er góð fyrir alla.“

Upptaka af blaðamannafundinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert