Gríðarleg eftirspurn á Eir

Hjúkrunarheimilið Eir að fróðengi 1-11
Hjúkrunarheimilið Eir að fróðengi 1-11 Mynd/Ómar Óskarsson

„Við höfum fengið gríðarleg viðbrögð við auglýsingunni sem birtist meðal annars í Morgunblaðinu, og fjölmiðlaumfjöllunina. Þetta hefur satt að segja komið með jákvæðum hætti í bakið á okkur,“ segir Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri eignaumsýslu hjúkrunarheimilisins Eirar.

Félagið hélt tvo fundi í dag þar sem öllum íbúum Eirar var boðið. Á fundunum var upplýst um að það standi til að leigja út íbúðir til fólks á öllum aldri. 

„Við höfum auglýst þessar íbúðir undanfarin misseri, aðallega til eldri borgara en ekkert hefur gengið. Það kunna að vera fleiri en ein skýring á því, en orðspor Eirar er auðvitað ekki hátt skrifað þessa dagana auk þess sem framkvæmdir við þjónustumiðstöðina við Spöngina trufla á svæðinu þar sem íbúðirnar eru. Síðan er það auðvitað verðlagið.“ 

Sveinn segir félagið verða að skoða nýjar leiðir. „Við verðum að skoða út fyrir kassann til þess að fá arð til þess að leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Til dæmis þær að standa við skuldbindingarnar gagnvart þessu fólki.“  

Hann segir um 100 manns hafa setið fundina. „Það er auðvitað þannig að það eru ekki allir sáttir, og einhverjir eru ósáttir. En meirihluti íbúa gefur okkur klapp á bakið og mikinn stuðning. 

Fólk á öllum aldri sækist eftir íbúðunum

Aðspurður segir hann hópinn fjölbreyttan sem sækist eftir íbúðunum. „Það kom mér þægilega á óvart að hluti þeirra er eldra fólk sem er við það að hætta á vinnumarkaði en metur það svo að það þurfi ekki strax á öryggisþjónustu að halda. En það sér fyrir sér að innan nokkurra ára kunni það að breytast og að þá hafi þau tryggt sér innkomu þarna. Síðan eru það pörin í bland við yngri einstaklinga, en ég hef einmitt heimildir fyrir því að þetta sé að miklu leyti ungt fólk líka. 

Drög komin að samningum

Alls er um að ræða 20 íbúðir á þessum tímapunkti sem stendur til að leigja út en þær eru staðsettar í Grafarvogi og nefnast einu nafni Eirborgir, en standa við Fróðengi 1-11.

„Fyrirspurnirnar eru komnar á þriðja hundrað núna. Mér finnst þetta alveg svakalegt. Þetta eru ekki umsóknir heldur fyrirspurnir um leiguverð. Síðan er ég kominn með tíu íbúðir þar sem þegar liggja fyrir drög að húsaleigusamningi og margir ætla að koma á næstu dögum að skoða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert