Telja ESB-aðild ekki Íslandi í hag

AFP

Meirihluti Íslendinga telur að innganga í Evrópusambandið myndi ekki þjóna hagsmunum Íslands samkvæmt niðurstöðum Eurobarometer-skoðanakönnunar fyrir sambandið sem birtar voru í vikunni en könnunin var gerð í maí síðastliðnum. 57% telja að innganga í ESB myndi ekki þjóna hagsmunum landsins en þriðjungur er á öndverðri skoðun.

Skoðanakönnunin nær til allra ríkja ESB auk ríkja sem sótt hafa um inngöngu í sambandið. Það er Serbíu, Svartfjallalands, Makedóníu, Tyrklands auk Íslands. Fleiri eru á þeirri skoðun í hinum umsóknarríkjunum að innganga í ESB myndi þjóna hagsmunum landa sinna en að það yrði þeim ekki í hag.

Einnig var spurt að því hvort innganga í ESB væri jákvæð eða neikvæð fyrir Ísland. 42% Íslendinga telja að innganga í sambandið væri neikvæð fyrir landið, 24% jákvæð og 29% hvorki neikvæð eða jákvæð. Fleiri eru hins vegar þeirrar skoðunar að innganga væri jákvæð en neikvæð í hinum umsóknarríkjunum.

Þá segjast 52% Íslendinga ekki treysta ESB samkvæmt skoðanakönnuninni en 40% bera hins vegar traust til sambandsins. Íbúar 19 af 33 ríkjum sem könnunin nær til bera minna traust til ESB en Íslendingar og þar af 16 af 28 ríkjum sambandsins.

Einnig er spurt um traust til Sameinuðu þjóðanna og segjast 81% Íslendinga treysta þeim en 13% eru á öndverðri skoðun. Íslendingar bera mest traust til SÞ af þeim þjóðum sem könnunin nær til. Næstir koma Danir með 76% traust til samtakanna og þar á eftir Svíar með 70%.

Skoðanakönnunin í heild

Frétt mbl.is: Telja Ísland vera á réttri leið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert