Borgarísjaki við Hornbjarg

Myndarlegur borgarísjaki undan Hornströndum í dag.
Myndarlegur borgarísjaki undan Hornströndum í dag. Ljósmynd/Sigurður Elvar

Talsvert hefur borið á hafís norðan við landið síðustu daga, þar á meðal er myndarlegur borgarísjaki sem marar úti fyrir Hornbjargi. Ísinn er tilkomumikill ásýndar en jakarnir geta verið hættulegir skipum.

„Það hefur verið mjög mikill ís, við höfum séð tvo stóra jaka og allnokkra minni,“ segir Hólmfríður Kría Halldórsdóttir skálavörður í Hornbjargsvita. Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var af sjó í dag, má sjá stærðarinnar borgarísjaka við Hornbjarg. 

Megnið af ísjaka er ávalt neðan sjávarmáls og því um mikil  flykki að ræða. Annar jaki hefur einnig sést úti fyrir Húnaflóa.

Hálfur kílómetri að lengd

Mun meira er af ísjökum á hafíssvæðinu í sumar en síðustu ár og eru sjófarendum bent á að sýna sérstaka aðgát. Hafís er venjulega mestur við Grænland í aprílmánuði.

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að nokkrir mjög stórir borgarísjakar hafi undanfarna daga sést á Grænlandssundi. Þetta sé nokkuð snemmt því venjulega gerist þetta ekki fyrr en á haustin. Hins vegar er að sögn Ingibjargar mikið um það núna að jakar brotni úr Grænlandsjökli. 

Einn jakinn fyrir Norðurlandi var upphaflega hálfur annar kílómetri að lengd, að sögn Ingibjargar.

„Þetta sést vel á gervitunglamyndum. Vonandi strandar þessi jaki en þetta er auðvitað hættulegt skipum. Þeir eru farnir að brotna upp, þá dreifast þeir og þessir litlu sjást verr í ratsjá en stóru jakarnir. Þetta er miklu harðari ís en venjulegur lagnaðarís.“

Sjást vel með berum augum

Samkvæmt hafísvef Veðurstofu Íslands hafa tilkynningar borist síðustu dag um hafísjaka um 5 km norður af Málmey í Skagafirði, frekar stóran jaka um 3-5 km frá landi við Siglufjörð og frá Hraunadal í Fljótum, auk Hornbjargsvita þar sem tveir stórir borgarísjakar hafa verið í siglingaleið.

Hólmfríður Kría segir að hafísinn sé tilkomumikil sjón sem sjaldan sjáist á meðan ferðamannatíminn stendur hæst á Hornstrandir. „Við sjáum þá vel hér með berum augum. Þetta er bara skemmtilegt.“

Aðspurð segist Hólmfríður Kría ekki finna fyrir því að köldu andi frá jökunum. Hafís hefur þó áhrif á hitafar, eins og Íslendingar þekkja frá hafísárunum svokölluðu á síðari hluta sjöunda áratugarins.

Síðustu ár hafa stakir borgarísjakar úr skriðjöklum borist að ströndum landsins og svokallað íshragl. Ísflekar eins og áður þekktust hafa hins vegar ekki borist hingað í nokkra áratugi.

Hafís er nú við Hornbjarg. Lítið er af samfelldum ísbreiðum …
Hafís er nú við Hornbjarg. Lítið er af samfelldum ísbreiðum á hafíssvæðinu í Grænlandssundi en talsvert margir stakir ísjakar eru greinanlegir á tunglmyndum. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert