Iðnaðarráðherra skoðaði virkjanir

Ragnheiður Elín Árnadóttir ásamt staðarverkfræðingi Búðarhálsvirkjunar og forstjóra Landsvirkjunar við …
Ragnheiður Elín Árnadóttir ásamt staðarverkfræðingi Búðarhálsvirkjunar og forstjóra Landsvirkjunar við Búðarhálsvirkjun í gær

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heimsótti ásamt fylgdarliði úr ráðuneytinu Landsvirkjun þann 7. ágúst síðastliðinn þar sem Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri og sérfræðingar kynntu fyrir ráðherra virkjunarkosti og aflstöðvar á Þjórsár- og Tungnaársvæði.

Þeir virkjunarkostir sem ráðherra skoðaði í ferðinni voru Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun í Þjórsá.

Ráðherrann kynnti sér einnig hugmyndir um stækkun Búrfellsstöðvar með annarri aflstöð innan við núverandi stöð, sem myndi nýta umframvatn sem í dag rennur oft og tíðum framhjá stöðinni - en sú virkjun myndi samnýta Bjarnarlón við Búrfell með núverandi aflstöð.

Ráðherra skoðaði auk þess tvær vindmyllur á Hafinu ofan Búrfells og fór að því loknu inn Sprengisandsleið að Þjórsá þar sem lónstæði Norðlingaölduveitu var skoðað og þær hugmyndir sem þar hafa verið til skoðunar kynntar fyrir ráðherra.

Að lokinni vettvangsskoðun á efri hluta Þjórsár fékk ráðherra kynningu á áformum um vatnsaflsvirkjun í Skrokköldu og mögulegri nýtingu jarðvarma í Hágöngum. Að því loknu var vinnusvæði Búðarhálsvirkjunar heimsótt áður en haldið var áleiðis til Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert