Graham sagðist ekki hommafælinn

Franklin Graham.
Franklin Graham. Ljósmynd/BGEA

„Ég er ekki hommafælinn, hef ekkert á móti samkynhneigðum. Þeir mega lifa sínu lífi eins og þeim hentar. Það er hins vegar bjargföst trú mín að orð Guðs sé skýrt, hjónaband er á milli karls og konu. Enga umræðu þarf um þetta atriði.“ Þetta sagði prédikarinn Franklin Graham sem boða mun boðskap sinn hér á landi í lok september.

Orð þessi lét Graham falla í sjónvarpsþætti Piers Morgans á fréttarásinni CNN í október 2012. Hann hefur raunar margoft haldið því sama fram í gegnum árin. Í bloggfærslu á heimasíðu samtaka sinna, Evangelísku Bill Graham-samtakanna, í lok síðasta árs sagði hann hjónabönd samkynhneigðra aðeins toppinn á ísjakanum og að þjónkun fjölmiðla við samkynhneigða og hegðun þeirra endurspeglaði siðferðisbrestinn í bandarísku þjóðfélagi.

Árið 2003 studdi hann afstöðu George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, til málefnisins. „Það er sterk hreyfing að myndast með hjónaböndum fólks af sama kyni og ef forsetinn skerst ekki í leikinn og tekur málin í sínar hendur á þessu sviði eigum við á hættu að glata hjónabandinu í þeirri mynd sem við þekkjum það hér í landinu,“ sagði Graham þá.

Óvænt auglýsing samkomu hér á landi

Franklin er sonur hins þekkta sjónvarpsklerks Billys Grahams, sem segja má að hafi verið andlegur leiðtogi Richards Nixons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Raunar átti Billy Graham fund með öllum Bandaríkjaforsetum frá því Harry Truman gegndi því embætti árið 1950. Nú síðast með Barack Obama.

Billy Graham stofnaði trúboðið sem ber nafn hans árið 1950 og nýtti sér sjónvarpið og aðra fjölmiðla, nú síðast netið, til að koma boðskap sínum á framfari. Franklin hóf sjálfur að setja upp samkomur árið 1989, tók við sem framkvæmdastjóri samtakanna árið 2000 og forseti 2002.

Kristniboðssamtök Billys Grahams standa að samkomunni Hátíð vonar hér á landi í lok september í samstarfi við íslenskar kirkjur og kristin trúfélög. Samkoman fékk óvænta auglýsingu þegar þjóðkirkjan íslenska setti inn fréttatilkynningu um hana á vefsvæði sitt. Það fór fyrir brjóstið á Samtökunum 78 enda tilkynningin sett inn þegar Hinsegin dagar standa sem hæst. 

Gagnrýni Samtakanna 78 og fleiri varð til þess að þjóðkirkjan ákvað að taka út tilkynninguna. „Tímasetningin gefur tilefni til að ætla að þjóðkirkjan vilji gagnrýna samkynhneigða og réttindabaráttu þeirra,“ segir á vef kirkjunnar. Þá er áréttað að þjóðkirkjan stendur ekki að Hátíð vonar og stendur ekki fyrir komu Franklins Grahams hingað til lands.

Vísast hefði heimsókn Grahams farið framhjá flestum ef ekki væri fyrir þetta útspil kirkjunnar.

Í mars síðastliðnum var sagt frá samkomunni og rætt við framkvæmdastjóra Hátíðar vonar. Þar sagði að svonefndur Friðrikskapelluhópur hefði átt frumkvæði að samkomunum. „Það kom aðvörun um það sumarið 2008 að erfiðir tímar væru framundan á Íslandi og hvatning til kristinna kirkna um að biðja,“ sagði Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri þá. „Hópur fólks úr ýmsum kirkjum hóf að hittast í Friðrikskapellu í ágúst 2008 til bæna og ákvað að halda því áfram. Svo kom hrunið. Síðan höfum við haldið áfram að biðja fyrir yfirvöldum, þjóðinni og andlegri vakningu.“

Einnig á móti íslam

Franklin Graham hefur þó ekki aðeins gagnrýnt hjónabönd samkynhneigðra. Hann vakti mikla og neikvæða athygli þegar hann lét þau orð falla að íslam væru „afar ill og óvæn trúarbrögð“. Þá kvaðst hann ekki vera viss um að Obama væri sannkristinn. „Ég get ekki sagt það afdráttarlaust vegna þess að íslam hefur fengið frítt spil hjá Obama,“ sagði Graham spurður hvort hann vildi þá lýsa því yfir að Obama væri múslími.

Graham vísaði til þess að íslamskir flokkar hefðu rutt sér til rúms í arabíska vorinu og sagði viðbrögð Bandaríkjamanna við ofsóknum á hendur kristnum minnihlutahópum í Mið-Austurlöndum og Afríku máttlítil. Hann sæi ekki betur en Obama hefði „meiri áhyggjur af múslímum þessa heims“ en „kristnum mönnum, sem eru myrtir í íslömskum löndum“.

Engu að síður var Graham boðið að stýra bænastund í varnarmálaráðuneytinu í maí 2010 en það boð var afturkallað vegna andmæla múslíma.

Vefsvæði Hátíðar vonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert