Reykjavík að springa úr gleði

Miðborg Reykjavíkur er nú undirlögð litadýrð og skrautklæddu fólki enda stendur Gleðiganga hinsegin daga sem hæst. 

Tugþúsundir fólks á öllum aldri taka jafnan þátt í Gleðigöngunni og í ár varð engin breyting þar á eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Gangan hófst á Sóleyjargötu og endar við Arnarhól, þar sem fer nú fram kröftug hátíðardagskrá sem stendur til 17.30.

Jón Gnarr í þjóðbúningi

Skilaboðin sem þátttakendur í göngunni senda eru með óteljandi móti, gleðin er í forgrunni en undir niðri er pólitískari undirtónn. Meðal vagna sem sjá mátti í göngunni í ár var t.d. bíll með þremur verðlaunapöllum í anda Ólympíuleikanna með þeirri yfirskrift að Rússland vinni gullið í ár fyrir mesta ójöfnuðinn, en mannréttindamál hinsegin fólks í Rússlandi hafa verið mjög undir smásjá alþjóðasamfélagsins síðustu vikur.

Eins og fyrri ár tók Jón Gnarr borgarstjóri þátt í göngunni í draggi. Að þessu sinni var hann prúðbúinn í íslenskum upphlut. Hinn litríki sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis Arrega, og starfsfólk sendiráðsins tóku einnig þátt í göngunni og héldu á borða með tilvitnun í öldungadeildarþingmanninn John Kerry sem sagði: 

„Hlutirnir eru að breytast vegna þess að fólk hefur þorað að berjast fyrir því.“ (e. „Things are changing because people have dared to stand up“).

Hatri mætt með kærleika

Páll Óskar Hjálmtýsson var fremur hófstilltur í Gleðigöngunni í ár samanborið við glamúr síðustu ára. Hann klæddist hvítum jakkafötum og hafði krans um hálsinn í regnbogalitunum, en bar ásamt öðrum stóran borða sem á stóð: „Takk hinsegin Ísland fyrir að mæta hatri með kærleika".

Fyrsta útihátíð hinsegin fólks á Íslandi var haldin í júní 1993 og aftur árið eftir, en síðan varð hlé á þessum viðburði fram til ársins 1999. Þá var blásið til hátíðardagskrár á Ingólfstorgi að viðstöddum 1.500 manns.

Síðan þá hafa Hinsegin dagar vaxið hratt og eru nú meðal stærstu viðburða í Reykjavík. Þar sameinast lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og transfólk ásamt fjölskyldum og vinum og fagna fjölbreytileikanum. 

Gleði, ást og fjölbreytileiki einkenna miðborg Reykjavíkur í dag.
Gleði, ást og fjölbreytileiki einkenna miðborg Reykjavíkur í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
Jón Gnarr borgarstjóri var í sínu fínasta draggi í ár, …
Jón Gnarr borgarstjóri var í sínu fínasta draggi í ár, í íslenskum upphlut. mbl.is/Ómar Óskarsson
Hátíðardagskrá fer nú fram á sviði við Arnarhól og stendur …
Hátíðardagskrá fer nú fram á sviði við Arnarhól og stendur til 17:30. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert