Verða útundan eftir grunnskóla

Hópur sænskra ungmenna er nú í heimsókn hjá ungmennaráði Seltjarnarness en í sameiningu ætla ungmennin að vinna að gerð heimildarmyndar um það hvað ungmennaráð er og hvernig slík samtök geti nýtt sér verkefnið Evrópa unga fólksins. Krakkarnir segja að aldurshópurinn verði gjarnan útundan þegar kemur að afþreyingu og því sé starfið mikilvægt.

Íslenski hópurinn ferðaðist til Lundar í Svíþjóð á dögunum og heimsótti sænska kollega sína og verður heimildarmyndin afrakstur af vinnu hópsins í ferðunum en krakkarnir eru um 20 talsins. Friðrik Árni Halldórsson er í ráðinu sem hann segir að sé öllum opið og allir séu velkomnir til að taka þátt í starfinu. Það felst að mestu í því að vinna að sínum áhugamálum á heilbrigðan hátt en allt starf ungmennaráðsins er vímulaust.

Síðar í mánuðinum verður tekin til notkunar aðstaða fyrir ungt fólk á þessum aldri í Félagsmiðstöðinni Seli sem er að nokkur leyti umbun fyrir vel unnin störf ráðsins. Það hefur meðal annars stuðlað að einstökum árangri í nánast vímuefnalausum grunnskóla og hafa stjórnendur bæjarins því kappkostað að hlúa að starfinu. 

Thea Winge, einn sænsku krakkanna, segir að líkt og á Íslandi sé þetta aldurshópur sem verði oft útundan hvað afþreyingu varðar og að aðstaðan í Selinu sé öfundsverð. Næstkomandi föstudag verður svo hápunktur heimsóknarinnar en hópurinn hefur boðað til málþings á Seltjarnarnesi þangað sem fulltrúum frá ungmennaráðum um allt land hefur verið boðið að koma og miðla sinni reynslu af undirbúningi og starfsemi ungmennaráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert