Bjarnarflagsvirkjun fari í nýtt umhverfismat

Sigurður Ingi Jóhannsson tók við lyklavöldum í umhverfisráðuneytinu í vor …
Sigurður Ingi Jóhannsson tók við lyklavöldum í umhverfisráðuneytinu í vor af hjá Svandísi Svavarsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra vill að Landsvirkjun láti vinna nýtt umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun. Ný þekking og mikil reynsla hafi bæst við frá því umhverfismatið var unnið fyrir 10 árum. Þetta kemur fram á heimasíðu ráðherrans.

„Bjarnarflagsvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar og hefur Landsvirkjun nýtingarrétt á svæðinu. Umhverfismat virkjunarinnar er hins vegar nærri tíu ára gamalt og staðreyndin sú að á þeim tíma hefur orðið til mikil ný reynsla og þekking á umhverfisáhrifum við byggingu jarðvarmavirkjana og forsendur því breyst. Ég tel afar mikilvægt að Landsvirkjun vinni nýtt umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn.

Bjarnaflagsvirkjun er á afar viðkvæmu svæði og hafa komið fram vísbendingar um að virkjunin geti hugsanlega haft áhrif á hið viðkvæma lífríki Mývatns. Jafnframt þarf að gæta betur að áhrifum virkjunarinnar á hagsmuni heimamanna svo og ferðaþjónustunnar sem byggir á sérstæðri náttúru svæðisins. Má meðal annars nefna losun affallsvatns, áhrifa niðurdælingar á vatnsstrauma neðanjarðar og brennisteinsmengun.

Samfélagið í Mývatnssveit byggir að mestu á ferðaþjónustu og landbúnaði. Lífríki Mývatns er einstætt á heimsvísu, svæðið er friðlýst og á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði (Ramsar). Ég hvet Landsvirkjun til að láta vinna nýtt umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun þar sem tekið verði fyllsta tillit til allra fyrirliggjandi upplýsinga og nýjustu þekkingu beitt þannig að lífríki og sérstæðri náttúru Mývatns verði ekki ógnað,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert