Allir sakborningar neituðu sök í Milestone-málinu

Sakborningar og verjendur þeirra í héraðsdómi í dag
Sakborningar og verjendur þeirra í héraðsdómi í dag mbl.is/Rósa Braga

Stjórnendur Milestone og þrír endurskoðendur frá KPMG neituðu öll sök við þingfestingu máls á hendur þeim við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Sakborningar mættu öll í dómsal. Sérstakur saksóknari höfðaði málið vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur á árunum 2006 til 2007.

Í málinu eru Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, Karl Wernersson, stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, stjórnarmaður, ákærðir fyrir umboðssvik, meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga í tengslum við greiðslurnar til Ingunnar en þær námu á sjötta milljarð króna.

Jafnframt eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.

Mótmæltu framlagningu gagna

Verjendur mótmæltu framlagningu reikningsskila- og endurskoðunarstaðla við þingfestingu málsins, þar sem þeir töldu að um réttarheimildir væri að ræða og því ekki þörf á að leggja gögnin fram. Verjendur kröfðust þess einnig að gefið væri upp hverjir væru höfundar tiltekinna gagna svo hægt væri að spyrja þá út í gögnin fyrir dómi. Ákæruvaldið sá ekkert því til fyrirstöðu.

Þá mótmæltu verjendur einnig framlagningu umfangsmikilla viðauka við greinargerð rannsakenda, og vísaði dómari í málinu til þess að lög geri ekki ráð fyrir framlagningu viðauka af þeim toga sem ákæruvaldið lagði fram, og vísaði til Baugsmála lögunum til fyllingar.

Saksóknari bar því við að viðaukarnir væru settir fram með þessum hætti til að gera greinargerð rannsakenda læsilegri og aðgengilegri. Greinargerðin var því lögð fram án viðaukanna, sem hugsanlega munu koma inn í málið á síðari stigum.

Dómari bætti við að ef ákæruvaldið gæti gengið þannig frá þeim gögnum sem verjendur gerðu athugasemdir við þannig að þeir sættu sig við framsetningu þeirra, þá væri ekkert því til fyrirstöðu að leggja þau fram.

Fyrirtaka um kröfur verjenda varðandi þessi gögn verður í héraðsdómi þann 25. september klukkan 09:15.

Keyptu systur sína út úr Milestone

Viðskiptin gengu út kaup Karls og Steingríms á hlutafé Ingunnar, systur þeirra, í Milestone. Í ákærunni er greint frá því að það hafi verið gert með fléttu sem fólst í því að Milestone fjármagnaði kaupin. Með hennni komust stjórnendur Milestone hjá því að fjármögnun hlutabréfakaupanna kæmi til lækkunar á bókfærðu eigin fé Milestone.

Í fléttunni fólst að færð var sem eign í efnahagsreikning Milestone óljósar, munnlegar kröfur á hendur eignalitlu aflandsfélagi, Milestone Import Export, upp á tæpa 5,2 milljarða króna. Það félag var einnig í eigu systkinanna. Krafan var án nokkurra trygginga og skapaði því félaginu verulega fjártjónshættu.

Þannig héldu Werner-bræður fullum eignarráðum yfir félaginu, beint og í gegnum annað félag, og eignuðust þorra hlutafjár í Milestone, án þess að leggja fé til kaupanna og án þess að eigið fé félagsins minnkaði.

Skjölum bætt inn síðar

Þá eru endurskoðendur KPMG sakaðir um að hafa bætt inn í endurskoðunarmöppu lánasamningi á milli Milestone og Milestone Import Export til að láta líta út fyrir að hann hafi verið til staðar við gerð og endurskoðun ársreiknings fyrir árið 2006. Þá er þeim gefið að sök að hafa bætt við endurskoðunarmöppu Milestone eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta haustið 2009.

Karl Wernersson er einn þeirra sem ákærður er í málinu.
Karl Wernersson er einn þeirra sem ákærður er í málinu. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert