Krefjast 250 þúsund kr. lágmarkslauna

Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur samþykkt kröfugerð sem gerir ráð fyrir að lágmarkslaun hækka úr 204.000 kr. í 250.000 kr. við undirritun samningsins. Það er 22,5% hækkun.

Kjarasamningar renna út í lok nóvember. Félagið telur að 22,5% hækkun við undirritun samninga sé ágætis fyrsta skref í að brjótast út úr vítahring láglaunastefnunnar.

Kröfugerðin byggist meðal annars á hugmyndum um nýja launatöflu fyrir verkafólk þar sem 16 lægstu launaflokkarnir í eldri töflu eru þurrkaðir út og byggð upp ný launatafla. Einnig eru starfsaldurshækkanir auknar, en í gömlu töflunni munar einungis rétt rúmum 3% á milli byrjanda og starfsmanns sem hefur starfað í 7 ár. Í nýju töflunni verður launamunurinn 7% á milli sjö ára taxta og byrjanda. Lægsti launataxti verkafólks í dag er rétt rúmar 191 þúsund krónur fyrir fulla dagvinnu. 

„Það verður að vera þjóðarsátt um að hækka launataxta verkafólks svo um munar því það sér hver einasti maður að þau lágmarkslaun og taxtar sem verkafólki er boðið uppá duga engan veginn til að verkafólk geti framfleytt sér og sínum.

Samfélagið í heild sinni verður að brjótast út úr vítahring láglaunastefnunnar og bjóða verkafólki mannsæmandi laun fyrir sína vinnu.  Það er alveg spurning hvort fyrirtæki sem ekki geta boðið sínum starfsmönnum uppá dagvinnulaun sem nema 250 þúsundum á mánuði eigi yfir höfuð tilverurétt á íslenskum vinnumarkaði,“ segir í frétt frá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert